Karfan er tóm.
Fréttaritari hefur um nokkurt skeið farið yfir upplýsingar um verðlaunahafa, fjölda liða, fjölda og úrslit leikja, þátttökulið og leikmenn liða í Íslandsmótinu í krullu frá því það fór fyrst fram 2002.
Í excel-skjali hér má sjá yfirlit um allt það krullufólk og þau lið sem unnið hafa til verðlauna á Íslandsmótinu, ásamt fjölda leikja hvert ár.
Og hér er örlítið yfirlit um mótin ár fyrir ár:
2002
Fyrsta Íslandsmótið. Fjögur lið tóku þátt, leikin var tvöföld umferð, samtals 12 leikir. Ísmeistarar urðu Íslandsmeistarar en jafnir þeim að stigum urðu Garpar sem fengur silfrið en Víkingar fengu brons. Bæði liðin unnu fjóra leiki en töpuðu tveimur – unnu hvort sinn leikinn í innbyrðis viðureignum þessara liða. Af þeim leikmönnum sem tóku þátt í fyrsta Íslandsmótinu eru átta enn í krullunni og hafa þessir átta jafnframt tekið þátt í öllum Íslandsmótum frá upphafi. Þetta eru þeir Ágúst Hilmarsson, Árni Arason, Davíð Valsson, Gísli Kristinsson, Hallgrímur Valsson, Jón S. Hansen, Sigurgeir Haraldsson og Sigfús Sigfússon. Stærsti sigurinn á Íslandsmótinu þetta árið var 10-1 sigur Ísmeistara á Fálkum.
Íslandsmeistarar: Baldur Ó. Baldursson, Carl Watters, Hallgrímur Ingólfsson, Sigurgeir Haraldsson og Sveinn Björnsson (Ísmeistarar).
2003
Liðunum fjölgaði um eitt, fimm lið tóku þátt og var leikin tvöföld umferð, samtals 20 leikir. Víkingar urðu Íslandsmeistarar, unnu sex leiki, gerðu eitt jafntefli og töpuðu einum. Fálkar fengu silfrið og Ísmeistarar bronsið. Stærstu sigrar á mótinu 2003 komu í leikjum Garpa gegn Listhlaupi, 12-0 og 13-1 en þetta mót var fyrsta Íslandsmót Listhlaupsliðsins sem með ýmsum smábreytingum en þó sama kjarna kallast Fífurnar í dag. Listhlaupsliðið vann einn leik á þessu fyrsta Íslandsmóti sínu – gegn Víkingum, sem urðu Íslandsmeistarar.
Íslandsmeistarar: Birgitta Reinaldsdóttir, Björn Arason, Gísli Kristinsson, Jón B. Gíslason, Jón S. Hansen (Víkingar).
2004
Enn fjölgaði liðunum, sex lið tóku þátt í Íslandsmótinu og var leikin tvöföld umferð, samtals 28 leikir. Nýtt lið, Ernir, bættist í hópinn en fyrirliði þeirra var þó ekki alveg nýr á svellinu, sjálfur Ásgrímur Ágústsson. Í annað skiptið á þremur árum bar það við að tvö lið enduðu efst og jöfn. Raunar voru fimm af sex liðum í hnapp á toppnum, Fálkar og Ísmeistarar með 12 stig, Garpar og Víkingar með 11 stig og Ernir með 10 stig.
Fálkar og Ísmeistarar unnu bæði sex leiki en töpuðu fjórum – og unnu hvort sinn leikinn í innbyrðis viðureignum þessara liða. Til að skera úr um sigurvegara fór fram bráðabani mánudagskvöldið 29. mars 2004 þar sem fjórir leikmenn úr hvoru liði sendu einn stein og fengu stig eftir fjarlægð hans frá miðjupunkti. Þar höfðu Ísmeistarar betur og tryggðu sér þannig Íslandsmeistaratitilinn 2004. Garpar fengu bronsið. Stærsta sigurinn á Íslandsmótinu þetta árið áttu nýliðarnir, Ernir, gegn Listhlaupi, 12-4.
Íslandsmeistarar: Audrey Freyja Clarke, Björn Sigmundsson, Hallgrímur Ingólfsson, Sigurgeir Haraldsson, Sveinn Björnsson (Ísmeistarar).
2005
Breytingar urðu á liðum fyrir Íslandsmótið 2005 í tengslum við þátttöku liðs héðan á Heimsmeistaramóti eldri leikmanna (50+). Liðið sem fór utan til keppni, Fimmtíu plús, spilaði einnig saman á Íslandsmótinu og vann það einfaldlega með yfirburðum – vann alla leikina og lauk keppni með fullu húsi. Liðið átti jafnframt stærsta sigur Íslandsmótsins þetta árið, 16-0 gegn Sauðagærunum, sem jafnframt er stærsti sigur á Íslandsmótinu enn í dag. Kústarnir unnu silfrið á sínu fyrsta Íslandsmóti og Skytturnar bronsið. Vegna tilfærslna á leikmönnum urðu til ný lið og nokkrar breytingar urðu á skipan liða og má segja að tilurð þessa nýja liðs hafi haft áhrif á skipan margra annarra liða eftir það. Jafnframt tilfærslum á milli liða má telja þetta metár hvað varðar nýliðun því 21 leikmaður í 5 liðum spilaði þarna á sínu fyrsta Íslandsmóti, þar á meðal þrjú lið eingöngu skipuð nýliðum, Kústarnir, Mammútar og Sauðagærurnar.
Níu lið tóku þátt í mótinu og var leikin einföld umferð, samtals 36 leikir. Fimmtíu plús vann alla leikina eins og áður sagði.
Íslandsmeistarar: Ágúst Hilmarsson, Gísli Kristinsson, Hallgrímur Valsson, Júlíus Arason, Sigurgeir Haraldsson.
2006
Íslandsmótið 2006 fer í sögubækurnar fyrir það að þá tóku í fyrsta skipti þátt í mótinu lið bæði frá Akureyri og Reykjavík. Haldin var undankeppni á báðum stöðum, þrír þriggja liða riðlar á Akureyri og einn fjögurra liða riðill í Reykjavík, samtals þrettán lið. Á Akureyri fóru því fram níu leikir í undankeppninni og sex leikir í Reykjavík. Átta lið, sex frá Akureyri og tvö úr Reykjavík, kepptu síðan með útsláttarfyrirkomulagi í úrslitakeppninni, þó þannig að lið sem töpuðu leik duttu ekki beinlínis úr keppninni heldur héldu áfram keppni um neðri sætin. Leikirnir á Íslandsmótinu þetta árið urðu því samtals 27 (9+6+12). Stærstu sigrarnir þetta árið voru tveir 10-0 sigrar, annars vegar hjá Bragðarefum gegn Fálkum á Akureyri og hins vegar hjá Rubber Ducks gegn Sveipnum í Reykjavík, og svo 11-1 sigur Kústanna á Hittnum í úrslitakeppninni. Skytturnar urðu Íslandsmeistarar eftir sigur á Mammútum í úrslitaleik en það voru Bragðarefirnir sem unnu bronsið.
Íslandsmeistarar: Ágúst Hilmarsson, Hallgrímur Valsson, Jón S. Hansen, Sigurður Gunnarsson, Sigurgeir Haraldsson (Skytturnar).
2007
Annað árið í röð tóku þátt lið bæði frá Akureyri og Reykjavík, tíu að norðan og fjögur að sunnan. Leikin var einföld umferð, 45 leikir á Akureyri, 6 í Reykjavík. Átta lið tóku þátt í úrslitakeppninni, sjö frá Akureyri og eitt frá Reykjavík, samtals 14 leikir leiknir þar. Tvö lið að sunnan áttu rétt á sæti í úrslitakeppninni en annað þeirra tók ekki sitt sæti þannig að liðið sem varð í sjöunda sæti í undankeppninni á Akureyri tók þátt í úrslitakeppninni og vann reyndar bronsverðlaun. Stærsti sigur í Íslandsmótinu þetta árið var 11-0 sigur Fálka gegn Skyttunum í úrslitakeppninni. Sigurvegarar þetta árið urðu Kústarnir eftir sigur á Bragðarefum í úrslitum en Fálkar fengu bronsið eftir sigur á Fífunum.
Íslandsmeistarar: Eiríkur Bóasson, Gunnar H. Jóhannesson, Kristján Þorkelsson, Ólafur Hreinsson og Pálmi Þorsteinsson (Kústarnir).
2008
Árið 2008 voru það aftur aðeins lið frá Akureyri sem tóku þátt í Íslandsmótinu. Ellefu lið tóku þátt og kepptu um fjögur sæti í úrslitakeppninni. Fram fóru 55 leikir í undankeppninni og sex leikir í úrslitakeppninni. Stærsta sigurinn þetta árið unnu Fífurnar, 10-0, gegn Svarta genginu. Mammútar unnu Víkinga í úrslitaleik og Norðan 12 vann Garpa í leik um bronsið.
Íslandsmeistarar: Arnar Sigurðsson, Gísli Dúa Hjörleifsson, John Júlíus Cariglia, Jón Ingi Sigurðsson og Ólafur Númason (Mammútar).
2009
Aftur voru aðeins lið frá Akureyri í Íslandsmótinu og hafði þeim fækkað á milli ára, voru aðeins átta þetta árið. Leiknir voru 28 leikir í undankeppninni , fjögur lið fóru í úrslitakeppni þar sem leiknir voru sex leikir. Stærsti sigurinn þetta árið var 15-0 sigur Víkinga á Skyttunum. Í þriðja sinn á fjórum árum léku Mammútar til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn, í þetta sinn unnu þeir Víkinga í úrslitaleik en Garpar unnu Üllevål í leik um bronsið.
Íslandsmeistarar: Haraldur Ingólfsson, Jens Kristinn Gíslason, Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Númason og Sveinn H. Steingrímsson (Mammútar).
2010
Átta lið taka þátt í Íslandsmótinu sem nú stendur yfir og leika þau tvöfalda umferð, samtals 56 leiki en fjögur lið fara í úrslit og þar fara fram fimm leikir.
Þegar Íslandsmótinu 2010 lýkur hafa því verið leiknir samtals 344 leikir á Íslandsmótinu frá upphafi, samanlagt úr undankeppnum og úrslitum. Taldir eru með sem „leiknir“ leikir sem annað liðið hefur þurft að gefa af einhverjum ástæðum. Einn af leikjunum sem fram fór 10. Febrúar þetta árið telst því vera 300. leikurinn á Íslandsmótinu í krullu frá upphafi.
Að meðtöldu mótinu nú hafa farið fram 289 leikir í undankeppni á Akureyri og tólf í Reykjavík. Fyrstu fjögur skiptin (2002-2005) sem keppt var um Íslandsmeistaratitilinn fór ekki fram úrslitakeppni en frá 2006 hefur farið fram úrslitakeppni og að meðtalinni úrslitakeppninni þetta árið verða leikirnir orðnir 43.
Sigursælustu lið og einstaklingar
Óhætt er að segja að Sigurgeir Haraldsson sé sigursælasti krullumaðurinn frá upphafi ef litið er til árangurs í Íslandsmótinu. Hann hefur fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari, oftar en nokkur annar, og einu sinni unnið brons. Hann vann til verðlauna á hverju ári fyrstu fimm árin sem mótið fór fram, fyrstu þrjú árin með Ísmeisturum (2 gull, 1 brons), síðan gull með Fimmtíuplús og síðast gull með Skyttunum 2006. Hvort sem Sigurgeir vinnur gull í þetta skiptið eða ekki verður hann áfram sá leikmaður sem á flest gullverðlaun frá Íslandsmótinu því næstu menn hafa unnið gullið tvisvar, en það eru Gísli Kristinsson, Hallgrímur Valsson, Ágúst Hilmarsson, Jón S. Hansen, Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Númason, Sveinn Björnsson og Hallgrímur Ingólfsson. Ef litið er á fjölda verðlauna einstakra leikmanna, óháð því hver „málmurinn“ er þá kemur í ljós að fjórir aðrir leikmenn hafa unnið fimm sinnum til verðlauna eins og Sigurgeir en það eru: Gísli Kristinsson (2 gull, 2 silfur, 1 brons), Hallgrímur Valsson (2 gull, 1 silfur, 2 brons), Haraldur Ingólfsson (1 gull, 2 silfur, 2 brons) og Davíð Valsson (2 silfur, 3 brons).Víkingar eru það lið sem oftast hefur unnið til verðlauna á Íslandsmótinu, alls fjórum sinnum. Í öll skiptin hefur Gísli Kristinsson stýrt liðinu og er eini liðsmaðurinn sem hefur verið með liðinu í öll fjögur skiptin. Ef aðeins er litið á gullverðlaunin eru það Ísmeistarar og Mammútar sem hafa vinninginn, en bæði liðin hafa unnið tvisvar til gullverðlauna.
Samtals hefur 51 leikmaður unnið til verðlauna á Íslandsmótinu, sumir reyndar án þess að spila leik en voru þá skráðir sem varamann í lið sem vann til verðlauna. Ekki liggur fyrir hve margir leikmenn hafa leikið samtals með öllum þeim liðum sem tekið hafa þátt í mótinu á Akureyri og í Reykjavík en fréttaritari vinnur að því að safna saman öllum þeim nöfnum til fróðleiks og skemmtunar.
Ef villur finnast eða eitthvað vantar í þessa samantekt eða í tölfræðisamantektina í excel-skjalinu eru lesendur hvattir til að koma leiðréttingum á framfæri.