Listhlaup: Tvær úr SA á leið til Austurríkis

Glæsilegir fulltrúar Skautafélags Akureyrar.
Glæsilegir fulltrúar Skautafélags Akureyrar.


Listhlaupadeild Skautafélags Akureyrar á tvo fulltrúa í íslenska landsliðinu í listhlaupi sem keppir á Icechallenge 2012 í Graz í Austurríki núna í vikunni. Elísabet Ingibjörg Sævarsdóttir og Hrafnhildur Ósk Birgisdóttir eru einnig í landsliðshóp sem valið verður úr fyrir Norðurlandamótið 2013.

Þær Hrafnhildur Ósk og Elísabet Ingibjörg komu heim með gull og brons af Bikarmóti ÍSS á dögunum, en Hrafnhildur náði þá í fyrsta skipti yfir 70 í heildareinkunn. Þær hafa ásamt öðrum iðkendum í listhlaupadeildinni æft af kappi undir stjórn Ivetu Reitmayerovu, yfirþjálfara LSA.

Þrotlausar æfingar hafa skilað þeim landsliðssæti og nú eru þær á leið til Graz í Austurríki með landsliðinu þar sem þær munu keppa á móti á vegum Alþjóða skautasambandsins, ISU Icechallenge 2012. Norðurlandamótið í listhlaupi fer síðan fram í Reykjavík síðar í vetur og eiga þær báðar möguleika á að keppa þar, en þær eru í landsliðshópi sem valið verður úr fyrir það mót.

Ófærðin næstum búin að skemma fyrir
Um tíma leit ekki vel út með þátttöku þeirra á mótinu því ófært var frá Akureyri suður, bæði á landi og í loft. Það var ekki fyrr en síðdegis á laugardag sem stelpurnar komust með flugi suður, en þær áttu bókað flug frá Keflavík í býtið í morgun. 

Keppa á þriðjudag og miðvikudag
Aðalæfingar fyrir mótið verða á mánudag og eiga íslensku stúlkurnar ístíma kl. 19.10 að staðartíma í Graz. Auk okkar stúlkna eru fjórar stúlkur úr Reykjavíkurfélögunum á leið til Graz - sjá frétt á heimasíðu Skautasambandsins.


Hrafnhildur Ósk og Elísabet Ingibjörg keppa báðar í Advanced Novice flokki. Þær verða á svellinu á þriðjudags- og miðvikudagsmorgun, en við höfum ekki nákvæmar tímasetningar fyrr en búið er að draga um keppnisröð.

Keppni í stuttu prógrammi í Advanced Novice flokki verður á þriðjudag kl. 8-13 og keppni í frjálsu prógrammi verður á miðvikudagsmorguninn kl. 9.15-14.30 (bæði að staðartíma í Austurríki).

Við höfum ekki fréttir af því hvort hægt verður að fylgjast með stúlkunum í beinni útsendingu á netinu, en munum upplýsa það hér ef við fáum fréttir af því.

Upplýsingar: Heimasíða mótsins  -  Úrslitasíða mótsins


Myndirnar inni í fréttinni tók Ásgrímur Ágústsson af stúlkunum á Haustmóti ÍSS sem fram fór á Akureyri nýlega. Á neðri myndinni má sjá þjálfara stúlknanna, Ivetu Reitmayerovu, á bak við glerið.