Karfan er tóm.
Um síðastliðna helgi kláraðist Íslandsmótið í Listhlaupi þar sem Skautafélag Akureyrar vann tvo Íslandsmeistaratitla af þremur en Marta María Jóhannsdóttir vann í Junior annað árið í röð eftir æsispennandi keppni við Aldís Köru Bergsdóttur. Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir vann einnig Íslandsmeistaratitilinn í annað sinn í Advanced Novice með miklum yfirburðum.
Á Íslandsmeistaramótinu er aðeins keppt í 3 flokkum, Advanced Novice, Junior og Senior. Skautafélagið átti engan keppanada í Senior að þessu sinni en mjög hörð keppni var milli stúlknanna okkar þeirra Mörtu Maríu og Aldísar Köru í Junior en Aldís sigraði einmitt í þessum flokki á bikarmótinu fyrr í haust. Marta fékk 38.64 stig í stutta prógraminu og Aldís Kara 37,94 stig svo mjög mjótt var á munum fyrir frjálsa prógramið. Marta María náði einnig flestum stigum í frjálsa eða 64.46 stig og 103.10 stig í heildina sem er stigamet hjá henni sjálfri. Aldís Kara fékk 62.57 stig og 100.51 stig í heildina svo hún bætti einnig sitt eigið stigamet. Þetta var jafnframt í fyrsta skipti í sögunni sem tvær stúlkur fara yfir 100 stigin á sama mótinu í íslenskri keppni. Ásdís Arna Fen Bergsveinsdóttir frá Skautafélagi Akureyrar hlaut 80,85 stig og náði 5. sæti.
Í Advanced Novice bar Ísold Fönn höfuð og herðar yfir aðra keppendur flokksins en hún gerði sér lítið fyrir og setti nýtt stigamet á Íslandi fyrir stutt prógram eða 41.51 stig! Í frjálsa prógraminu fékk Ísold svo 64.56 stig og því 106.07 heildarstig og bætti því Íslandsmetið í heidarstigum sem hún átti sjálf frá því í fyrra. Júlía Rós Viðarsdóttir keppti einnig fyrir hönd Skautafélagsins í þessum flokki og hlaut 70,21 stig sem fleyttu henni í 4. sæti.
Það voru því þrjár stúlkur frá Skautafélagi Akureyrar sem rufu 100 stiga múrinn um helgina og því má segja að 100 stigin séu ekki lengur múr heldur nánast að verða að viðmiði. Frábær árangur hjá stúlkunum okkar og greinilegt að þær miklu framfarirnar sem hafa orðið í listhlaupi á Íslandi halda áfram. Skautafélag Akureyar óskar stúlkunum öllum sem og þjálfurum þeirra hjartanlega til hamingju með glæsilegan árangur.
Marta María og Aldís Kara á palli (mynd: iceskate.is)
Ísold Fönn á palli (mynd: iceskate.is)