Marta María sigraði stúlknaflokk A með miklum yfirburðum og Emilía Rós varð efst Íslendinganna.

Reykjavíkurleikarnir 2016
Reykjavíkurleikarnir 2016

Á laugardaginn hófst mótið með keppni í frjálsaprógramminu hjá stúlknaflokki A. Þar byrjaði Aldís Kara fyrst í öðrum upphitunarhópi. Aldís Kara skilaði mjög fallegu prógrammi sem gaf henni 44. 23 stig og skaust hún upp í 4 sæti með frammistöðunni (2. af íslensku stúlkunum) samanlagt fékk hún 68.31 stig. Þá var komið að Ásdísi Örnu, en hún skautaði þriðja í öðrum upphitunarhópi. Ásdís Arna skilaði fallegu prógrammi, þó aðeins vantaði upp á spinnana hennar, með 42.07 stig. Frammistaða dagsins skilaði henni í 5. sæti (3. sæti af íslensku stúlkunum) samanlagt með 67.93 stig. Fimmta í öðrum upphitunarhóp var svo Marta María. Hún skautaði sitt prógramm mjög fallega með mikilli snerpu og gleði og skilaði það henni sigri í flokknum með miklum yfirburðum. Marta fékk fyrir frjálsaprógrammið 51.13 stig og samanlagt 81,89 stig.

Þá var komið að Unglingaflokki A. Margir sterkir erlendir skautarar voru mættir til leiks í Unglingaflokki A. Alls voru 19 skautarar skráðir til leiks. Emilía Rós var fyrri til af stúlkunum okkar tveim í Unglingaflokki að skauta inn á ísinn, í næst síðasta upphitunarhóp. Hún skilaði mjög fallegu prógrammi upp á 34.57 stig og stóð hún í 7. sæti að loknum fyrri deginum (2. af íslensku stúlkunum). Elísabet Ingibjörg (Gugga) var svo næst og var hún í síðasta upphitunarhóp. Gugga skilaði fallegu prógrammi þrátt fyrir smá hnökra í byrjun og stóð hún 10. (4. af íslensku stúlkunum) eftir fyrri daginn með 30.58 stig og nýtt persónulegt met.

Á sunnudaginn var Gugga fyrri inn á ísinn í 2 upphitunarhóp. Hún skilaði flottu prógrammi upp á 55.89 stig og dugði það henni í 11. sæti (5. af íslensku stúlkunum) samanlagt með 86.47 stig. Þá var röðin komin að Emilíu Rós, en hún var síðust í öðrum upphitunarhóp. Emilía skilaði mjög fallegu prógrammi upp á 65.33 stig og skilaði það henni í 5. sæti (1. af íslensku stúlkunum) með 99,90 stig.

Við óskum stelpunum öllum til hamingju með flottan árangur á Reykjavíkurleikunum.