Meistaraflokkarnir fara vel af stað í Hertz-deildunum

Hilma Bergsdóttir í færi (mynd: Bjarni Helgason)
Hilma Bergsdóttir í færi (mynd: Bjarni Helgason)

Íshokkítímabilið fór aftur af stað nú um helgina en meistarflokkar kvenna og karla spiluðu 3 leiki um í Reykjavík og unnust sigrar í þeim öllum. Meistaraflokkur kvenna sigraði SR tvívegis, fyrst 3-1 á föstudagskvöld og svo 13-0 á laugardag. SA Víkingar mættu FJölni í gær og unnu 11-0 sigur.

Meistaraflokkur kvenna spilaði hörkuleik við SR á föstudagskvöld þar sem bæði lið skoruðu snemma leiks og staðan var 1-1 fram á 44. mínútu þegar Hilma Bergsdóttir kom SA loks yfir í leiknum í yfirtölu. Katrín Rós Björnsdóttir innsiglaði svo 3-1 sigur skömmu síðar aftur í yfirtölu en Arndís Sigurðardóttir skoraði fyrsta mark SA. SA liðið kom svo á allt öðru tempói inn í síðari leikinn við SR og gengu hreint til verks en þær skoruðu 4 mörk í fyrstu 5 mínútum leiksins og unnu á endanum 11-0 sigur þar sem Hilma Bergsdóttir og Gunnborg Jóhannsdóttir skoruðu 3 mörk hvor, Katrín Björnsdóttir og Berglind Leifsdóttir tvö mörk og þær María Eiríksdóttir, Anna Sonja Ágústsdóttir og Eva Karvelsdóttir eitt mark. Birta Björnsdóttir stóð í markinu báða leikina og var með 90% markvörslu í fyrri leiknum og 100% í þeim síðari.

SA Víkingar sóttu Fjölni heim í Grafarvoginn í gær og það tók SA Víkinga ekki nema 39 sekúndur að skora fyrsta markið þegar Halldór Skúlason kom SA Víkingum yfir í leiknum eftir góðan undirbúning Heiðars Krisveigarsonar. Góð byrjun hjá Halldóri sem spilaði sinn fyrsta leik með SA Víkingum í vetur en hann snéri heim til SA frá Hvidovre IK í Danmörku fyrir áramótin. SA Víkingar bættu við tveimur mörkum til viðbótar í fyrstu lotunni með mörkum Matthíasar Stefánssonar og Jóhanns Leifssonar. SA Víkingar stigu aldrei af bensíngjöfinni eftir þetta og skoruðu að lokum 11 mörk geng engu en þeir Einar Grant, Baltasar Hjálmarson, Heiðar Krisveigarson, Ormur Jónsson, Atli Sveinson, Derric Gulay og Hafþór Sigrúnarson (2) skoruðu mörkin. Jakob Jóhannesson stóð í markinu og varði öll 24 skot Fjölnis í leiknum.