Mikilvægur sigur í höfn

Mynd: Elvar Freyr Pálsson
Mynd: Elvar Freyr Pálsson

Kvennalið SA vann mikilvægan 6:2 sigur á liði Reykjavíkur í fyrsta leik í úrslitarimmunni í kvöld. Þær voru þó langt frá því að spila sinn besta leik, en sigurinn engu að síður staðreynd og geta þær því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í Egilshöll á fimmtudagskvöldið.

Heimaliðið virkaði stressað í byrjun leiksins og áttu þær varla skot á mark fyrstu tíu mínúturnar og Reykjavíkur liðið virkaði ákveðnara. Rétt eftir miðja lotuna skoraði Arndís svo fyrsta mark leiksins með glæsilegu skoti. Stoðsendingu átti Linda. Nokkru síðar átti svo Hilma gott mark með stoðsendingu frá Berglindi og Sarah skoraði svo þriðja mark leiksins í yfirtölu stuttu fyrir lok lotunnar. Markið kom upp úr góðu samspili hennar og Teresu og staðan í fyrra leikhléi 3:0. SA skoraði svo þrjú mörk í annarri lotu, fyrst átti Hilma glæsilegt mark, svo skoraði Linda með stoðsendingu frá Evu og að lokum Ragga án stoðsendingar. Staðan eftir lotuna 6:0

SA liðið átti ekki góðan leik í síðustu lotunni og það kom sér þá vel að hafa 6 marka forskot. Þær voru samtals 8 mínútur í refsiboxinu í lotunni og nýtti Reykjavíkurliðið sér það ágætlega. Þær skoruðu tvö mörk í lotunni, bæði þegar þær voru leikmanni yfir. En lengra náði það ekki og leiknum lauk með öruggum sigri SA, 6:2. 

Sami Lehtinen, þjálfari SA var fáorður eftir leikinn. “Við unnum, það er það sem skiptir mestu. En það er margt hægt að bæta.” SA-stúlkur leggja land undir fót á fimmtudag og annar leikur í rimmunni verður í Egilshöll klukkan 19:15. Þær hafa alla burði til að klára rimmuna þá en þurfa að leika vel. 

Mörk (stoðsendingar): Hilma 2, Linda 1 (1), Arndís 1, Sarah 1, Ragga 1, Teresa (1), Eva (1), Berglind (1).

Birta stóð í markinu og varði 20 skot.