NIAC lokið

Díana Björgvinsdóttir á fleygiferð.  Ljósm. Sigurgeir Haraldsson
Díana Björgvinsdóttir á fleygiferð. Ljósm. Sigurgeir Haraldsson
Í gær lauk NIAC mótinu með síðari viðureign íslenska landsliðsins gegn hinum bresku í Slough Phantoms.  Fyrri leikurinn á fimmtudaginn lauk með 11 – 1 sigri þeirra bresku og síðari leikurinn í gær var nokkuð betri en honum lauk 6 – 0.  Það er óhætt að segja að gestirnir voru mun sterkari en okkar leikmenn en þess má geta að liðið er í næst efsta sæti í bresku deildinni um þessar mundir og í liðinu er þrjár landsliðskonur auk kanadískra leikmanna með mikla leikreynslu.

Þrátt fyrir getumuninn var hér um gríðarlega mikilvæga reynslu fyrir okkar leikmenn að ræða en tækifæri til að spila við erlend lið hér á landi eru allt of fá.  Mótið í heildina heppnaðist mjög vel og gestirnir voru mjög ánægðir með ferðina, en auk þess að spila íshokkí fór liðið á skíði og fór í jarðböðin í Mývatnssveit.  Veðrið lék við leikmennina meðan á mótinu stóð, snjór yfir öllu en sólskin og blíðviðri sem allt hjálpaði til við að gera mótið og heimsóknina enn eftirminnilegri.


Vonandi verður áframhald á þessum skemmtilega viðburði og eiga skipuleggjendur miklar þakkir skilið fyrir mikla vinnu og mikinn undirbúning í aðdraganda mótsins og að öðrum ólöstuðum hvíldi undirbúningurinn að mestu á herðum Margréti Ólafsdóttur, Söruh Smiley og Guðrúnu Blöndal.  Lengi framan af var gert ráð fyrir fleiri liðum en bæði Rúmenía og Belgía forfölluðust og því varð að gera það besta úr stöðunni sem upp er komin og óhætt er að segja að það hafi tekist.
En þegar einu líkur tekur annað við, því strax á morgun hefst úrslitakeppnin í kvennaflokki í Reykjavík – meira um það síðar.