Karfan er tóm.
Vormót ÍSS fór fram nú um helgina í Laugardal en SA vann þar til þriggja gullverðlauna. Iðkenndur SA unnu einnig til fjögurra silfurverðlauna og tveggja bronsverðlauna á mótinu. Stærsta afrek helgarinnar var þó nýtt Íslandsmet sem Aldís Kara Bersdóttir setti þegar hún fékk 112.81 stig en eldra metið átti hún sjálf frá því í febrúar þegar hún náði 108.45 stigum á Reykjavíkurleikunum.
Aldís Kara byrjaði strax með látum á laugardeginum þegar hún setti nýtt stigamet í stutta prógraminu í þessum flokki en hún lendi meðal annars þreföldu Salchowi í samsetningu og fékk 41.37 stig. Marta María Jóhannsdóttir frá SA var ekki langt á eftir en hún fékk 40.91 stig í stutta prógraminu en báðar tvær hafa tekið miklum framförum í vetur. Á sunnudeginum byrjaði Marta María með fullgildum tvöföldum Axel í samsetningu og lauk prógraminu með 107.08 stig. Aldís Kara gerði enn betur og lenti meðal annars tvöföldum Axel í þriggja stökka samsetningu og fékk heildarstig uppá 112.81 stig og vann til gullverðlauna ásamt því að að bæta sitt eigið Íslandsmet en Marta María lenti í öðru sæti.
Í Advanced Novice var Júlía Rós Viðarsdóttir frá SA í fyrsta sæti með prógrami sem skilaði henni 74.05 stigum. Í öðru sæti var Freydís Jóna Jing Bergsveindóttir frá SA með 63.24 stig.
Elísabet Ingibjörg Sævarsdóttir úr SA vann til gullverðlauna í Intermediate Ladies og Hugrún Anna Unnarsdóttir frá SA varð í þriðja sæti. Í Intermediate Novice náði Telma Mary Arinbjarnardóttir öðru sæti.
Í Basic Novice varð Magdalena Sulova frá SA varð í öðru sæti og Sædís Heba Guðmundsóttir úr SA í þriðja sæti.
Skautafélag Akureyrar vann því til 9 verðlauna á mótinu sem er frábær árangur og við óskum öllum keppendum og þjálfara þeirra til hamingju með árangurinn og glæsilegt skautatímabil.
Á myndinni er Darja Zajcenko þjálfari ásamt Aldísi Köru, Mörtu Maríu, Júlíu Rós og Freydís Jónu.