SA-stúlkur Íslandsmeistarar

Mynd: Ari Gunnar Óskarsson
Mynd: Ari Gunnar Óskarsson

Kvennalið SA varð í kvöld Íslandsmeistarar eftir öruggan sigur í öðrum leik úrslitakeppninnar sem fram fór í Egilshöll. SA hafði yfirhöndina frá upphafi og vann öruggan 1:7 sigur. Sarah Smiley átti mjög góðan leik og skoraði þrjú marka SA en í heildina spilaði liðið vel, liðsheildin var góð og sigurinn var verðskuldaður.

SA-liðið kom ákveðið til leiks en það var þó ekki fyrr en tæpar 5 mínútur voru eftir af fyrstu lotu að þær náðu að skora. Það var Jónína sem kom pekkinum inn fyrir marklínuna, eftir stoðsendingu frá Lindu og Berglindi. Það var svo Sarah sem kom liðinu í 0:2 þegar um tvær mínútur voru eftir af lotunni, stoðsending áttu Gunnborg og Kolbrún. Þær héldu svo uppteknum hætti í annarri lotu, Sarah kom liðinu í 0:3 um miðja lotuna, glæsileg þruma af nokkuð löngu færi. Stoðsendingu áttu Teresa og Anna Sonja. Hún skoraði svo annað glæsimarkið þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af lotunni, stoðsendingu í þetta sinn áttu Anna Sonja og Hilma. Þær gáfu ekkert eftir í þriðju lotunni, Kolbrún skoraði fimmta markið með stoðsendingu frá Gunnborgu og Eva skoraði svo af löngu færi með stoðsendingu frá Arndísi. SA vörnin sofnaði svo aðeins á verðinum um miðja lotuna og Reykjavík náði að minnka muninn í 1:6 en Kolbrún skoraði lokamarkið stuttu síðar. 

Liðið í kvöld var miklu ákveðnara og öruggara en í leiknum á þriðjudagskvöldið. Þær spiluðu betur saman, voru yfirvegaðar og spiluðu vel í yfirtölu en þrjú markanna kom úr spili þegar þær voru einum eða tveimur leikmönnum fleiri. Sigurinn var aldrei í hættu og Íslandsmeistaratitillinn verðskuldaður. 

Mörk (stoðsendingar): Sarah 3, Kolbrún 2 (1), Gunnborg (2), Anna Sonja (2), Jónína 1, Eva 1, Linda (1), Berglind (1), Teresa (1), Hilma (1) og Arndís (1).

Birta stóð í markinu og varði 12 skot.