SA Víkingar deildarmeistarar

Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)
Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)

SA Víkingar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn Í Hertz-deildinni í gærkvöld þegar þeir unnu sannfærandi sigur á Birninum, lokatölur 10-3. SA Víkingar eru þá komnir með heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni sem hefst 3. apríl þar sem liðið mætir Esju.

Lið Bjarnarins byrjaði leikinn í gærkvöld vel og lét ekki á sjá að þeir væru með fáa skiptimenn á meðan leikur Víkinga hökkti aðeins frá byrjun. Bjarnarmenn skoruðu fyrsta markið þegar Artjoms Dasutins komst einn í gegnum vörn Víkinga og kláraði færið laglega. SA Víkingar svöruðu að bragði þegar Bart Mora fann Jón Benedikt Gíslason á fjærstönginni og Jordan Steger bætti svo við öðru marki skömmu síðar. Jóhann Leifsson stýrði svo skoti Jussi Sipponens í markið áður en Bjarnarmenn minnkuðu munninn í eitt mark. Jussi Sipponen kom Víkingum aftur í tveggja marka forystu áður en lotan kláraðist og staðan 4-2 eftir fyrstu lotu.

SA Víkingar mætu grimmir í aðra lotuna og skoruðu þrjú mörk án þess að Björninn næði að svara og gerðu þar með út um leikinn en mörkin skoruðu Jussi Sipponen, Andri Már Mikaelsson og Jordan Steger. Þriðja lotan var svo nánast bara formsatriði en Víkingar stjónuðu lotunni og skoruðu 4 mörn en Björninn 1 og lokatölur því 10-3.

SA Víkingar eiga tvo leiki eftir í deildinni áður en úrslitakeppnin hefst, fyrst heima á móti SR þriðjudaginn 13. mars og mæta svo Esju 20. mars á þeirra heimavelli í síðasta deildarleiknum fyrir úrslitakeppnina.