SA Víkingar Íslandsmeistarar 2018

Íslandsmeistarar 2018 (mynd: Steini Vignis)
Íslandsmeistarar 2018 (mynd: Steini Vignis)

SA Víkingar unnu Esju í gærkvöld í þriðja sinn í úrslitkeppni karla í íshokkí með sex mörkum gegn tveimur og tryggðu sér þar með Íslandsmeistaratitlinn árið 2018. SA Víkingar unnu einvígið 3-0 en titilinn var sá 20. í röðinni hjá félaginu. SA Víkingar áttu stórgott ár því liðið er bæði deildar- og Íslandsmeistarar og tapaði aðeins tveimur leikjum í venjulegum leiktíma í vetur. Leikurinn í gærkvöld var einnig sögulegur fyrir þær sakir að hann var kannski síðasti leikur Esju í íslensku íshokkí en liðið hefur tilkynnt að það verði ekki með á næsta tímabili.

SA Víkingar byrjuðu leikinn af krafti náðu strax forystunni á 5 mínútu leiksins með baráttu marki frá Jóhanni Leifssyni. Bart Moran bætti við öðru marki fyrir Víkinga tveimur mínútum síðar og staðan var 2-0 eftir fyrstu lotuna. Í upphafi annarar lotu fengu Esju menn vítaskot en Tim í marki Víkinga varði skot Egils Þormóðssonar. Um miðja lotuna brutu tveir leikmenn Esju af sér á einum leikmanni Víkinga og misstu því tvo leikmenn í refsiboxið á sama tíma. SA Víkingar nýttu sér liðsmuninn og Bart Moran setti pökkinn örugglega í markhornið og jók munin í 3 mörk. Jóhann Leifsson skoraði svo 4. mark Víkinga skömmu síðar og staðan því orðin nokkuð góð að því virtist fyrir Víkinga. Undir lok lotunnar skall leikmaður Esju á Tim í marki Víkinga sem kastaðist úr markinu og Jan Semorad nýtti sér það og setti pökkinn í óvarið markið og minnkaði muninn í þrjú mörk en staðan var 4-1 fyrir síðustu lotuna. Í upphafi þriðju lotu minnkaði Pétur Maack muninn í tvö mörk en nær komst Esja ekki því Jordan Steger skoraði 5. mark Víkinga skömmu síðar. Andri Már Mikaelsson gulltryggði svo sigur Víkinga með góðu marki og SA Víkingar fögnuðu 20. Íslandsmeistaratitli félagsins ákaft ásamt stuðningsmönnum sínum sem létu vel í sér heyra í stúkunni.

SA Víkingar eru vel að titlinum komnir en þó liðið hafi verið þunnskipað eins og oft áður í byrjun tímabils þá tapaði liðið aðeins tveimur leikjum í venjulegum leiktíma á öllu tímabilinu. Lengi hefur heyrst sú mýta að risaeðlurnar í liði Víkinga séu að hverfa en í ár voru dregnar á flot enn fleiri gamlar kempur en áður og það virkaði vel þar sem liðið spilaði betur með hverjum leiknum sem leið á tímabilið.  Það má svo segja að annar leikurinn í úrslitakeppninni þar sem Jussi Sipponen skoraði 3 mörk af bláu línunni hafi verið vendipunktur keppninnar og sigurmark Bart Morans í framlengingunni reyndist gríðarlega mikilvægt því ómögulegt er að segja til um hvernig keppnin hefði þróast ef Esja hefði jafnað metin í keppninni þar. Heimavöllurinn SA sannaði sig svo í gærkvöld og verður að teljast ærið verkefni að ætla sækja þangað sigur þegar SA Víkingar eygja möguleika á að tryggja sér titilinn þar. Jóhann Leifsson átti þátt í 5 mörkum SA Víkinga í leiknum í gærkvöld og var lang stigahæsti leikmaður úrslitkeppninnar og óumdeilanlega besti sóknarleikmaður úrslitakeppninnar í ár. Jussi Sipponen og Bart Moran voru einnig drjúgir í leiknum í gær og ekki má gleyma ungum leikmönnunum 17 ára Gunnari Arasyni og 18 ára Sigurði Þorsteinssyni sem spiluðu eins og herforingjar í vörn Víkinga í úrsliakeppninni. Titilinn í ár er sá 20. í sögu félagsins en ekki nóg með það því hann er sá 21. hjá herra íshokkí Sigurði Sigurðssyni sem hefur einnig unnið tvo titla með Skautafélagi Reykjavíkur.

Esja hefur gefið út að liðið verði lagt niður og taki ekki þátt í Íslandsmótinu á næsta tímabili. SA Víkingar hafa mætt Esju í úrslitum síðust 3 tímabil þar sem öll einvígin hafi endað með 3-0 sigri liðsins sem hefur orðið deildarmeistari en SA vann 2016 og 2018 en Esja 2017. Leikir þessara liða eru eftirminnilegir því þeir hafa nánast allir verið gríðarlega jafnir og spennandi svo það verður verulegur missir af Esju. Liðið hefur litað Íslandsmótið á skemmtilegan hátt síðustu ár og Skautafélag Akureyrar vill því þakka Esju fyrir góða keppni og sitt framlag fyrir íslenskt íshokkí.