SA Víkingar kláruðu Evrópuferðina með sigri á Spánarmeisturunum

SA Víkingar sigruðu Spánarmeistarana í Txuri Urdin 3-2 í lokaleik sínum í Evrópukeppninni og ljúka þar með keppni með 4 sigra úr 6 leikjum og enduðu í 3. sæti riðilsins. Kurbads Riga vann riðilinn með því að leggja úkraínska liðið HC Donbass í frábærum lokaleik með tveimur mörkum gegn einu og fara í undanúrslitin sem fram fara í Lyon í nóvember.

Spænska liðið byrjaði leikinn í gær betur og höfðu undirtökin fyrstu 10 mínútur leiksins á meðan Víkingar voru nokkuð lengi að ná takti og jafna út hraðan í leik spánverja. SA Víkingar komust svo betur inn í leikinn þegar líða fór á fyrstu lotuna og tóku jafnt og þétt völdin á vellinum.  Hafþór Sigrúnarson var fyrstur til þess að skora fram hjá Ander Alcaine í marki spánverjanna en sá var erfiður ljár í þúfu fyrir Víkinga líkt og annarra liða í mótinu. SA Víkingar fengu góð færi í kjölfarið til þess að auka muninn en það voru Spánverjarnir sem jöfnuðu leikinn áður en önnur lota kláraðist og staðan 1-1 fyrir síðustu lotuna. Strax í upphafi 3. lotu skoraði Jussi Sipponen algjörlega ruglað sirkus mark og kom Víkingum í 2-1. Jóhann Már Leifsson skoraði þriðja mark Víkinga skömmu síðar og virtist hafa tryggt Víkingum sigurinn en þegar um 5 mínútur lifðu leiks skoruðu Spánverjarnir í yfirtölu og minnkuðu muninn í eitt mark. Síðustu mínútur leiksins voru æsispennandi en Víkingar voru þéttir í vörninni og héldu Spánverjum að mestu frá markinu og tryggðu sér 3. sætið í riðlinum. Jóhann Már Leifsson var valinn besti leikmaður Víkinga í lok leiks.

Spilamennska og úrslit Víkinga í keppninni vakti athygli í Lettlandi og má segja að liðið hafi unnið hug og hjörtu heimamanna en fjölmiðlar ytra vildu líkja liðinu við fótbolta landslið Íslands. Margir leikmenn liðsins vöktu einnig athygli á mótinu en markvörður Víkinga Adam Beukeboom var með næst hæsta markvörsluhlutfall mótsins. Jussi Sipponen var að lokum valin besti varnarmaður mótsins en önnur verðlaun fóru til sigurliðsins. SA Víkingar unnu ekki alla leikina í mótinu en unnu sér klárlega virðingu stærri hokkíþjóða í Evrópu og eru reynslunni ríkari.