SA Víkingar leiða úrslitaeinvígið 2-0

Andri fagnar marki (mynd: Elvar Pálsson)
Andri fagnar marki (mynd: Elvar Pálsson)

SA Víkingar sigruðu Esju 4-3 í gær í hádramatískum og spennandi leik. SA Víkingar hafa þá 2-0 forystu og geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn annað kvöld þegar liðin mætast í þriðja leik á Akureyri en leikurinn hefst kl 19.45.

Útlitið var ekki bjart fyrir annan leik úrslitakeppninnar þar sem ófært hafði verið landleiðina suður frá því snemma á laugardag en SA Víkingar dóu ekki ráðalausir og tóku flugið suður og voru því mætir til leiks á tilsettum tíma. Það var góð stemning í húsinu og nokkur vel mætt á þennan leik þar sem flestir áhorfendur voru á bandi Esjumanna. Leikurinn byrjaði vel hjá Esjumönnum sem náðu strax völdum í leiknum líkt og í fyrsta leik og héldu pekkinum fyrstu mínútur leiksins og gerðu sig líklega án þess þó að ná að skapa sér afgerandi marktækifæri. Esjumenn fengu fyrstu brottvísun leiksins og létu SA Víkingar ekki bjóða sér það tvisvar og skoruðu fyrsta mark leiksins þegar Ingvar Jónsson skoraði af harðfylgi er hann sneiddi pökkinn í netið af stuttu færi. Leikurinn var töluvert kaflaskiptur en eftir fyrsta markið voru það Víkingar sem sóttu betur og gerðu sig líklega til þess að auka forystuna eins og þeir gerðu þegar Jussi Sipponen náði frákasti framan við mark Esju og lagði pökkinn í opið markið og staðan góð fyrir Víkinga með 2-0 forystu í leikhléi.

Önnur lotan byrjaði ekki vænlega fyrir Víkinga þar sem þeir misstu strax mann í boxið og rétt í þann mund sem yfirtala Esju kláraðist fengu Víkingar annan brottrekstur þegar Jussi Sipponen var sendur í boxið. Esju menn voru í nokkrum vandræðum með að skapa sér almennileg færi en rétt áður en yfirtalan rann út þá náðu Esjumenn góðu skoti af bláu línunni sem speglaðist af skauta varnarmanns Víkinga og í markið og staðan 2-1. Jussi Sipponen kom úr boxinu strax eftir uppkastið og vann pökkinn, óð upp völlinn í gegnum tvo varnarmenn Esju og skoraði mark með glæsilegu einstaklingsframtaki og jók forystu SA í tvö mörk um hæl. SA Víkingar héldu áfram að þjarma að Esju eftir markið í nokkrar mínútur en fengu þá tvo refsidóma með stuttu millibili og Esja spilaði fimm gegn þremur Víkingum í rúma mínútu. Ekki tókst þeim að skora í tveggja manna yfirtölunni en fimm á móti fjórum fann Konstantyn Sharapov hann Brynjar Bergmann á fjærstönginni sem neldi pökkinn viðstöðulaust upp í markhornið og minnkaði muninn í eitt mark. SA Það var hart barist í síðustu mínútur lotunnar og þegar rétt um þrjár mínútur lifðu lotunnar náðu Víkingar góðri sókn þar sem pökkurinn endaði á spaðanum hjá Mario Mjelleli framan við mark Esju sem skoraði og kom Víkingum í 4-2.

Það var mikið um brottrekstra í síðustu lotunni og liðin skiptust á að sækja í yfirtölu. Esja fékk tvo dóma með stuttu millibili um miðja lotuna þar sem Víkingar freistuðu þess að ná tveggja marka forystu í tveggja manna yfirtölu og létu skotunum rigna á markið en Daníel markvörður Esja stóð vaktina frábærlega og hélt Víkingum frá því að skora. Esja fékk næstu yfirtölu og náðu ágætis færum og sóttu í kjölfarið grimmt síðustu mínútur leiksins þar sem þeir freistuðu þess að jafna leikinn en markvörður Víkinga hann Steve og markstangirnar gerðu þeim erfitt fyrir. Esja bætti við sjötta útispilaranum á lokamínútunni og markið tómt en Orri Blöndal vann þá pökkinn í varnarsvæði sínu og lyfti pekkinum yfir allan völlinn í átt að tómu markinu þar sem pökkurinn small í stöng og stoppaði á marklínu Esju þegar um 20 sekúndur voru eftir. Esju menn náðu síðustu sókn leiksins en náðu ekki að koma skoti á markið og Víkingar unnu annan seiglusigur og leiða nú einvítið 2-0.

SA Víkingar eiga möguleika á því að verða Íslandsmeistarar annað kvöld þegar liðin mætast í Skautahöllinni á Akureyri en leikurinn hefst á slaginu 19.45. Það verður væntanlega allt á suðupunkti annað kvöld þegar tvö góð hokkílið mætast í þriðja sinn en það hefur oft reynst liðum erfitt að ná jafnvægi eftir að ná 2-0 forystu og Esjumenn eru klárlega ekki búnir að játa sig sigraða. Veislan heldur áfram á morgun og eitthvað sem engin má missa af.

Mörk og stoðsendingar SA Víkinga:

Jussi Sipponen 2/0

Mario Mjelleli 1/1

Ingvar Jónsson 1/0

Andri Már Mikaelsson 0/1