SA Víkingar réðu ekki við Björninn

SA Víkingar sóttu Björninn heim í grafarvog í gærkvöld þar sem Bjarnarmenn tóku stigin þrjú með 5-4 sigri. SA Víkingum mistókst því að tryggja sig inn í úrslitakeppnina en Bjarnarmenn eygja enn von um að komast í úrslitakeppnina með sigrinum.

SA Víkingar byrjuðu leikinn af krafti og uppskáru 4 mínútna yfirtölu snemma leiks þegar brotið var illa á Hafþóri Sigrúnarssyni. SA Víkingar náðu illa að stilla upp í sóknarsvæðinu þar sem Bjarnamenn pressuðu stíft og náðu í kjölfarið góðri skyndisókn og skoruðu fyrsta mark leiksins þrátt fyrir að vera manni færri. Strax mínútu síðar gerðu Víkingar sig aftur seka um mistök og Bjarnarmenn léku sama leik og skoruðu annað mark úr skyndisókn en það er fáheyrt að lið skori manni færri hvað þá tvö mörk í sömu undirtölunni. Eitthvað fát virtist koma á lið SA Víkinga eftir þessa skelfilegu byrjun og Bjanarmenn gengu á lagið og skoruðu þriðja mark sitt nokkrum mínútum síðar þegar Egan Riley skoraði sitt annað mark í leiknum en hann lagði einnig upp það fyrsta. Björn Már Jakobsson lagaði stöðuna fyrir Víkinga með hnitmiðuðu skoti frá bláu línunni og staðan 3-1 og fyrsta lotan rétt hálfnuð. Liðin fengu bæði ágætt færi eftir þetta en Bjarnarmenn komust í yfirmannaða skyndisókn rétt undir lok lotunnar þar sem fyrrnefndur Egan Riley fann óvaldaðann Charles Williams framan við mark Víkinga en sá kom Birninum í 4-1.

Björninn freistaði þess að halda forystunni í annarri lotunni og færðu lið sitt aftar á völlinn á meðan Víkingar gerðu hvað þeir gátu til þess að koma inn marki og það tókst snemma í annarri lotunni þegar Sigurður Reynisson skaut pekkinum í markið eftir undirbúning Jussi Sipponens. SA Víkingar náðu löngum sóknarlotum í kjölfarið en Bjarnarmenn vörðust vel og náðu aftur á móti skyndisóknum sem voru hættulegar. Markverðir liðanna vörðu vel og fleiri mörk voru ekki skoruð í lotunni.

Liðin fengu sitthvora yfirtöluna í byrjun þriðju lotunnar sem þeim tókst ekki að nýta en nánast upp úr þurru skoraði Jussi Sipponen frábært mark með langskoti og minnkaði muninn í eitt mark. SA Víkingar settu þá allt sitt púður í sóknina en ekki betur en svo að Björninn refsaði aðeins mínútu síðar úr skyndisókn þegar Egan Riley kórónaði stórleik sinn og skoraði þriðja mark sitt en hann lagði einmitt upp hin tvö marka Bjarnarins. SA Víkingar sóttu grimmt það sem eftir lifði leiks og skiptu inn sjötta sóknarmanninum fyrir markmann og náðu að minnka muninn aftur í eitt mark þegar aðeins mínúta var eftir. SA Víkingar fengu dauðafæri til þess að jafna leikinn í blálokin en pökkurinn dansaði á línunni áður en lokaflautið gall og Björninn landaði nokkuð verskulduðum sigri.

Nú tekur við landsleikjafrí þar sem U-20 lið Íslands tekur þátt í heimsmeistaramóti í Mexíkó en næsti leikur SA Víkinga verður laugardaginn 30. janúar á heimavelli þegar liðið tekur á móti SR.