SA Víkingar með tap gegn Fjölni í kvöld

Úr leikjum helgarinnar (mynd: Þórir Tryggva.)
Úr leikjum helgarinnar (mynd: Þórir Tryggva.)

SA Víkingar töpuðu fyrir Fjölni í seinni leik tvíhöfða-helgar í Hertz-deild karla í kvöld – lokatölur 1-4. Fyrsta tap SA Víkinga á tímabilinu staðreynd og liðin skilja því jöfn eftir helgina en SA Víkingar eru en á toppi deildarinnar með 18 stig og Fjölnir í öðru sæti með 9 stig og einn leik til góða á Víkinga.

Leikurinn í kvöld byrjaði af sama krafti og leikurinn í gær og náðu Víkingar strax nokkuð góðum tökum á leiknum. Engin mörk voru skoruðu í 1. lotunni en SA Víkingar fengu hættulegustu færin þar sem pökkurinn small tvisvar í markstöng Bjarnarins. Nokkuð var um brottrekstra hjá báðum liðum en hvorugu liðinu tókst vel til í sínum yfirtölum.

Strax í upphafi 2. lotu koma Jóhann Már Leifsson Víkingum yfir með skoti frá bláu línunni sem fór í gegnum þvögu og í markið. SA Víkingar voru ekki lengi í paradís því Aron Knútsson jafnaði leikinn með skömmu síðar með einhverskonar sniðskoti sem kom Róberti í marki Víkinga í opna skjöldu. Fjölnismenn fengu augljóslega blóð á tennurnar með markinu því sóknarþunginn hjá liðinu jókst til muna og á 33. mínútu náðu þeir yfirmannaðri skyndisókn þar sem Einar Guðnason stýrði fastri þversendinu í markið og kom Fjölnismönnum í forystu í leiknum. Markið sló Víkinga aðeins útaf laginu og Fjölnismenn nýttu sér það og skoruðu þriðja markið aðeins mínútu síðar þegar Thomas Vidal stýrði skoti af bláu línunni markið og Fjölnismenn fóru með 3-1 forystu inn í síðustu lotuna.

Strax í upphafi 3. lotu fékk Andri Sverrisson sturtudóm fyrir að beita kylfuenda og SA Víkingar hófu því lotuna með 5 mínútna yfirtölu. SA Víkingar fengu góð tækifæri til þess að koma inn marki en það voru Fjölnismenn sem skoruðu manni færri þegar Einar Guðnason slapp einn í gegn um vörn Víkinga og skoraði fjórða mark Fjölnis í leiknum. SA Víkingar settu fullann kraft í að minnka muninn og náðu að minnka muninn í 2-4 þegar rétt rúmar 12 mínútur lifðu leiks. SA Víkingar reyndu hvað þeir gátu en náðu ekki að skapa sér afgerandi marktækifæri þar sem Fjölnismenn vörðust gríðarlega vel og unnu má segja verðskuldugan baráttusigur á okkar mönnum í kvöld.

Næsti leikur Víkinga í deildinni er gegn Fjölni laugardaginn 13. mars á sama stað og sama tíma.