Sarah Smiley ráðin íþróttastjóri Skautafélags Akureyrar

Sarah Smiley hefur verið ráðin íþróttastjóri Skautafélags Akureyrar. Staða íþróttastjóra er ný hjá Skautafélaginu en hlutverk þess að efla samstarf milli deilda félagsins og hafa umsjón með nýliðunarstarfi. Auk þess mun íþróttastjóri sjá um niðurröðun æfingartíma félagsins, vera í samvinnu við Akureyrarbæ um samfelldan vinnudag barna og umsjón við skautakennslu í skólum.

Sarah er auðvitað öllum hnútum kunnug hjá Skautafélaginu eftir störf sín fyrir hokkídeildina síðasta áratuginn eða svo. Sarah mun áfram sinna starfi sínu hjá íshokkídeild félagsins samhliða íþróttastjóra starfinu. Skautafélagið er gríðarlega ánægt með að fá Söruh í þetta nýja hlutverk og ekki hægt að finna hæfari manneskju í starfið enda allt orðið að gulli sem Sarah hefur snert í gegnum tíðina. Sarah Smiley hefur störf nú þegar og Skautafélag Akureyrar býður hana velkomna til starfa.

(Birna Baldursdóttir formaður og Sarah Smiley nýr íþróttastjóri SA við undirskriftina.)