Skemmtileg heimsókn á svellið

Algjörir jólasveinar!
Algjörir jólasveinar!


Listhlaupskrakkar skemmtu sér saman á svellinu ásamt fjölskyldum sínum í liðinni viku. Þrír bræður kíktu í heimsókn og N4 mætti með myndavél á lofti.

Miðvikudaginn 5. desember breyttu iðkendur í listhlaupi frá venjubundnum æfingum og buðu fjölskyldum sínum í heimsókn á svellið. Svo skemmtilega vildi til að á sama tíma komu þrír góðir í heimsókn úr Dimmuborgum í Mývatnssveit, já, alvöru jólasveinar. Þeir eru auðvitað ekki óvanir svellinu, bara ekki á skautum, því einn eða tveir af bræðrunum reimuðu á sig skauta og miðað við taktana má álykta að þeir séu ekki að renna sér á skautum á hverjum degi. Þvörusleikir brá reyndar á það ráð að setja skauta á þvöruna og virtist hún jafnvel skárri á skautum en hann sjálfur.

Reyndar voru jólasveinarnir þrír ekki einu gestirnir því við fengum einnig fulltrúa frá N4 á staðinn. Afraksturinn var síðan sýndur í fréttaþættinum á N4, en einnig er hægt að horfa á þáttinn á netinu.

Þessi skemmtilega samverustund á svellinu var í umsjá foreldrafélags Listhlaupadeildarinnar. Foreldrafélagið stendur einmitt í ströngu aftur næstkomandi sunnudag, 16. desember, þegar hin árlega jólasýning Listhlaupadeildar verður í Skautahöllinni á Akureyri, en félagið verður þá með kaffisölu. Foreldrafélaið reiðir sig á stuðning foreldra og óskar eftir framlagi á kaffihlaðborðið. Foreldrar sem eru beðnir um að vera í sambandi við Jónu, formann foreldrafélagsins, jona[hjá]nordlenska.is, varðandi skil og skipulag á veitingasölunni. 

Jólasýningin sjálf hefst kl. 17.30. Aðgangseyrir er 1.000 krónur, en frítt er fyrir 12 ára og yngri og eldri borgara.