Ynjur deildarmeistarar!

Ynjur fagna marki (mynd: Elvar Pálsson)
Ynjur fagna marki (mynd: Elvar Pálsson)

Ynjur og Ásynjur áttust við í gærkvöldi, fimmtudagskvöld, í því sem varð útslitaleikur um deildarmeistaratitilinn í meistaraflokki kvenna. Fyrir leikinn höfðu Ynjur 32 stig og Ásynjur 30 þannig að með sigri gátu Ynjur landað deildarmeistaratitlinum. Þær komu ákveðnar til leiks og ætluðu greinilega að klára þetta í þessum leik. Hilma skoraði fyrir Ynjur þegar um 4 og hálf mínúta voru liðnar af leiknum, laglegt mark með stoðsendingu frá Önnu Karen. Þegar rúmar 7 mínútur voru svo eftir af lotunni átti Silvía svo skot sem Guðrún Katrín varði í marki Ásynja en Silvía náði frákastinu og laumaði pekkinum snyrtilega í markið. Staðan eftir fyrstu lotu 2-0.

Ásynjur komu grimmar til leiks eftir fyrra leikhléið og Eva laumaði pekkinum inn eftir rúmar tvær mínútur. Þegar lotan var rúmlega hálfnuð kom Sunna kom pekkinum á Silvíu og hún skoraði glæsilegt mark. Þegar rúmar 3 mínútur voru eftir af lotunni skoraði Arndís flott mark nánast af bláu en undir lok lotunnar skoruðu Ynjur tvö glæsileg mörk, fyrst Teresta flott mark í yfirtölu og svo Silvía eftir glæisleg samspil við Berglindi og Teresu. Staðan í seinna lékhléi 5-2.

Ynjur hafa í vetur yfirleitt haft yfirhöndina í þriðju lotu í innbyrðis leikjum SA liðanna en það gerðu þær ekki í þetta skiptið. Ásynjur ætluðu ekki að gefast upp og Sarah náði frákasti eftir skot frá Önnu og staðan 5-3. Ynjuvörnin sofandi og Ásynjur ákveðnar. Þegar tæpar 7 mínútur voru liðnar af lotunni var Silvía send í kælingu og Ásynjur gættu ekki að sér þegar refsitíma hennar lauk, hún fékk pökkinn um leið og hún kom úr boxinu og skoraði glæsilegt mark. Staðan 6-3. Skömmu seinna brást vörn Ynja aftur og Sarah laumaði pekkinum í markið og minnkaði muninn í 6-4. Ásynjur héldu áfram að sækja hart að marki Ynja en Ragnhildur átti mjög gott langskot sem endaði í markinu þegar rúmar 4 mínútur voru eftir af lotunni. Sarah átti svo lokaorðið í leiknum þegar um tvær og hálf mínúta voru eftir og lokatölur 7-5.

Ynjur spiluðu á köflum frábærlega saman og áttu sigurinn fyllilega skilið. Ásynjur, sem söknuðu nokkurra lykilleikmanna, börðust vel og gáfust aldrei upp. Bæði lið virtust stressuð á tímabili en leikurinn í heild var hin besta skemmtun. Jussi Sipponen, þjálfari Ynja, sagði að þær hefðu gefið Ásynjum of mörg tækifæri og tíma til að athafna sig inn í varnarsvæðinu. Hann var þó að vonum kátur með að titillinn væri í höfn. Bart Moran, þjálfari Ásynja, sagði að leikurinn hefði verið hægur til að byrja með en svo hefðu bæði lið gefið í. Ásynjum hefði gengið vel að halda Ynjum í skefjum ef frá væri skilinn kafli um miðbik leiksins.

Mörk (stoðsendingar) Ynja: Silvía 4 (1), Teresa 1 (1), Hilma 1, Ragnhildur 1, Sunna (3), Berglind (2), Saga (1), Anna (1) og Apríl (1)

Mörk (stoðsendingar) Ásynja: Sarah 3, Eva 1, Arndís 1 og Anna Sonja (1)