Ynjur komnar með forystu í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn

Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)
Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)

Fyrsti leikur í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í meistaraflokki fór fram í gærkvöldi, þriðjudagskvöld, í skautahöllinni á Akureyri.  Leikurinn byrjaði hægt og stress virtist í báðum liðum en Ásynjur byrjuðu þó betur. Leikurinn var í járnum þar til rúmar 6 mínútur voru eftir af fyrstu lotu þegar Sarah geystist upp og skoraði eftir að Ynjur misstu pökkinn í sókn. Ásynjur voru grimmar áfram og sóttu stíft á mark Ynja en eftir að Ásynjur misstu Guðrúnu Marín út af, náðu Ynjur góðu spili einni fleiri, Ragga gaf þvert yfir svellið á Silvíu sem þrumaði pekkinum í mark Ásynja og jafnaði, 1-1. Þannig var staðan eftir fyrstu lotu.

Næsta lota var tíðindalítil til að byrja með, Ásynjur grimmar en svo jafnaðist lotan. Ásynjur pressuðu hart en það voru þó Ynjur sem skoruðu þegar um 8 mínútur voru liðnar. Þá skautuðu Sunna og Silvía upp, Silvía gaf á Sunnu sem þrumaði pekkinum í stöngina og inn og kom Ynjum í 2-1. Ynjur virtust vera að ná undirtökunum í leiknum en þegar rúmar 3 mínútur voru eftir af lotunni slapp Sarah í gegn, skaut og Birta varði en Sarah náði frákastinu og skoraði sjálf. Staðan í lok annarrar lotu 2-2.

Þriðja lota einkenndist af mistökum á báða bóga og litlu samspili. Bæði lið fengu powerplay sem þær náðu ekki að stilla upp í, Ynjur einu sinni og Ásynjur þrisvar, og sendingar misfórust. Bæði lið vantaði ákveðni. Ynjur fengu þrjár refsingar á sig í seinni hluta lotunnar en náðu að verjast vel í þeim öllum. Þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af lotunni virtist Díana skora fyrir Ásynjur en eftir að hafa ráðfært sig við línudómara og markadómara, dæmdi aðaldómarinn að það pökkurinn hefði ekki farið í markið. Ynjur sluppu þar með með skrekkinn en Ásynjur sóttu hart að marki Ynja það sem eftir lifði lotunnar en allt kom fyrir ekki og staðan 2-2 eftir venjulegan leiktíma.

Ynjur voru sterkari í framlengingunni og héldu pekkinum meiri hluta framlengingarinnar. Þegar um tvær mínútur voru liðnar af framlengingunni fékk Sarah brottvísun fyrir hooking og Ynjur stilltu upp í powerplay. Það var ein sek. eftir á refsiklukkunni þegar Ragga gaf á Silvíu sem þrumaði pekkinum í mark Ásynja og Ynjur þar komnar með forskot í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.

Jussi Sipponen, þjálfari Ynja, var að vonum sáttur með sigurinn. Hann sagði þó að sigurinn hefði getað fallið hvoru meginn sem var. Hann var ánægður með powerplayin sem Ynjur fengu og sagði að hans lið hefði verið heppið að það skyldi hafa verið niðurstaðan að Díana hefði ekki skorað og leikurinn þess vegna farið í framlengingu. Hann sagði einnig að honum fyndist það ætti að spila 5 á 5 í framlengingu, það gæfi raunhæfari mynd af getu liðanna. Bart Moran, þjálfari Ásynja, sagði að leikurinn gæfi góða vísbendingu um það hvernig áframhaldið í úrslitunum yrði. Fyrir utan byrjun annarrar lotu hefði leikurinn verið hraður og spennandi, bæði fyrir þátttakendur og áhorfendur. Lykilatriðið í framhaldinu væri hvoru liðinu tækist betur að stoppa hitt í að skora.

Næsti leikur í einvíginu er annaðkvöld klukkan 19:45. Frítt inn og örugglega ekki minni spenna en í gærkvöldi.

Mörk (stoðsendingar) Ynja: Silvía 2 (1), Sunna 1, Ragnhildur (2) og Berglind (2)

Mörk (stoðsendingar) Ásynja: Sarah 2 og Jónína (1)