Ynjur og 2. flokkur með sigra á SR

Kolbrún í baráttu um pökkinn (mynd: Elvar Pálsson)
Kolbrún í baráttu um pökkinn (mynd: Elvar Pálsson)

Ynjur unnu stóran sigur á SR í gærkvöld þegar liðin mætust í síðasta leik Hertz deildar kvenna en lokatölur voru 16-1 fyrir Ynjum.  2. flokkur vann svo SR síðar um kvöldið 3-2 í jöfnum og spennandi leik.

Lið Ynja var fullskipað í gær og þurftu þær enga lánsleikmenn frá Ásynjum í þetta sinn. Leikurinn byrjaði nokkuð rólega en sókn Ynja óx jafnt og þétt en markvörður SR varði vel í byrjun leiks. Fyrsta markið kom ekki fyrr en eftir rúmar 17 mínútur þegar Silvía Björgvinsdóttir opnaði markareikninginn. Ynjur bættu strax við tveimur mörkum á lokakafla fyrstu lotu og fóru með 3-0 forystu til leikhlés. Ynjur bættu við sex mörkum í annarri lotu á móti einu marki frá SR og skoruðu svo sjö mörk í þriðju og síðustu lotunni og lokatölur því 16-1. Kolbrún Garðarsdóttir var markahæst Ynja með fimm mörk en Silvía Björgvinsdóttir skoraði önnur fjögur og Sunna Björgvinsdóttir og Berglind Leifsdóttir tvö.

Síðari leikur kvöldsins var ívið meira spennandi en sá fyrri en þar mætumst stálin stinn í öðrum flokki þar sem SA þurfti nauðsynlega á sigri að halda til þess að vera áfram í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. SA komst í 1-0 í fyrstu lotu með marki frá Hafþóri Sigrúnarsyni.  SR jafnaði leikinn í annarri lotu og náðu svo 2-1 forystu áður en Axel Orongan jafnaði leikinn. Í þriðju lotunni var það svo Matthías Stefánsson sem skoraði eina mark lotunnar og tryggði SA mikilvægan sigur.  SA á aðeins tvo leiki eftir í 2. flokki þá báða gegn Birninum en aðeins þrjú stig skilja nú liðin að.