Karfan er tóm.
Iðkendur SA í íshokkí og listskautum luku á mánudag við gerð samskiptasáttmála fyrir iðkendur og félagsmenn Skautafélags Akureyrar. Sáttmálinn er leiðarvísir til að viðhalda og styrkja jákvæða menningu innan félagsins. Sáttmálinn er afurð vinnu sem félagið fór af stað með í haust þar sem markmiðið er að auka umburðarlyndi og almenna virðingu innan félagsins í forvarnarskyni gegn hatursorðræðu, fordómum og ofbeldi.
Allir flokkar félagsins 12 ára og eldri að meistaraflokkum meðtöldum hafa tekið þátt í þessu verkefni og fengið tækifæri til að móta þennan sáttmála. Vinna hefur staðið yfir frá því í haust en allir hóparnir fengu fræðslu um góð samskipti og fordóma áður en vinnan hófst. Iðkendahóparnir unnu svo vinnu þar sem þau greindu sitt eigið umhverfi og skilgreindu í sameiningu hvaða menningu þau væru tilbúin í að samþykkja innan síns eigin hóps. Á mánudag var unnin lokaafurð þessa verkefnis þar sem allir iðkendur yngri flokkanna komu saman í Teríunni í íþróttahöllinni og komu sér saman um lokaafurð Samskiptasáttmálans sem félagið mun héðan af starfa eftir.
Þungan af vinnunni í þessu verkefni hafa Erla Björnsdóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs og Helga Kristín Jónsdóttir mannauðsráðgjafi á Sjúkrahúsinu á Akureyri séð um en þær hafa unnið ómetanlegt starf í þágu félagsins. Erla og Helga hafa hitt alla hópana með fræðslu og vinnufundum í allan vetur og líka uppfrætt þjálfara og stjórnendur félagsins um hvernig þeir geta innleitt þessi nýju viðmið. Lokahnykkurinn á verkefninu er að fræða alla foreldra um sáttmálann en það verður gert á allra næstu dögum.
Fjölmargir aðilar hafa komið að þessu verkefni með Skautafélagi Akureyrar en Margrét Reynisdóttir frá Gerum Betur auk aðila frá embætti Samskiptaráðgjafa hafa komið að miðlun þekkingar og fræðslu í undirbúning fyrir þetta verkefni. Þá hafa allir stjórnendur, starfsfólks, þjálfara og iðkendur félagsins tekið þátt.
Við þökkum öllum hluteigandi aðilum fyrir að taka þátt í þessu með okkur og vonum að sáttmálinn muni tryggja áframhaldandi sterka, góða og jákvæða menning innan félagsins.
Verkefnið er fyrsta sinnar tegundar innan íþróttafélags á Íslandi að vitað sé til að markvist sé unnið að forvörnum gegn hverskyns hatursorðræðu, fordómum og ofbeldi. Stjórnendur Skautafélags Akureyrar eru reiðubúnir að miðla af þessari reynslu til annarra félaga ef áhugi er á.