Ísland mætir Kína í dag kl 14.30

Íslenska karlalandsliðið í íshokkí mætir Kína í dag í öðrum leik sínum á HM sem fram fer á Spáni. Leikurinn hefst kl 14.30 og er sýndur beint hér

Ísland tapaði í vítakeppni fyrir Belgíu í gær en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 4-4. Ísland byrjaði leikinn vel og komst í 2-0 með mörkum frá Andra Helgasyni og Robbie Sigurdssyni. Belgar skoruðu tvö mörk og jöfnuðu leikinn áður en fyrsta lota kláraðist. Robbie Sigurdsson kom svo Íslandi aftur yfir um miðja aðra lotuna en Belgar jöfnuðu um hæl og skoruðu svo fjórða mark sitt skömmu síðar og fóru með 4-3 forystu inn í leikhlé. Ísland óð í færum í þriðju lotunni og spiluðu frábært íshokkí á köflum en jöfnunarmarkið kom ekki fyrr en 23 sekúndum fyrir leikslok þegar Björn Róbert kláraði sitt eigið frákast snyrtilega og tryggði Íslandi eitt stig. Leikurinn fór í framlengingu þar sem hvorugu liðinu tókst að skora en Belgar skoruðu eina markið sem skorað var í vítakeppninni og tóku því með sér aukastigið. Kína tapaði fyrir Spáni 2-0 í gær en úrslit, stöðu og aðrar tölfræðilegar upplýsingar má finna á heimasíðu Alþjóða Íshokkísambandsins.