U-20 tapaði fyrir Kína – Taíwan í kvöld kl 21.00

U-20 lið Íslands í íshokkí tapaði fyrir Kína í öðrum leik sínum á HM í Nýja-Sjálandi. Kína skoraði 4 mörk gegn einu marki Íslands en leikurinn var mjög jafn og spennandi. Edmunds Induss skoraði eina mark Íslands en Gunnar Aðalgeir Arason var valinn besti maður íslenska liðsins í leiknum.

Íslenska liðið byrjaði leikinn vel og skoruðu snemma leiks þegar Edmund Induss prjónaði sig fram fyrir mark Kína og skoraði laglega upp í markhornið. Ísland fékk 4 yfirtölur í röð í fyrstu lotunni og hefðu átt að auka forystuna en gekk illa að losa mikla pressu frá liði Kína. Leikurinn var mjög kaflaskiptur þar sem liðin skiptust á að stjórna leiknum en Kína komst betur inn í leikinn í lok lotunnar og náðu að jafna metinn í 1-1.

Í annarri lotunni snérist leikurinn við og þá voru það Kínaverjar sem fengu yfirtölurnar og voru nokkuð hættulegir í þeim en Maxymilian í marki Íslands var frábær eins og hann hefur verið allt mótið hingað til. Ísland fékk þó sín færi í lotunni og en stangirnar björguðu Kína.

Íslenska liðið byrjaði þriðju lotuna illa sem Kínverjar nýttu sér og náðu 2-1 forystu snemma í lotunni eftir langa sóknarlotu. Íslenska liðið hrestist eftir þetta og fóru að setja meiri pressu á Kína en Kínverjar voru fljótir fram á við og fengu einnig sín færi í skyndisóknum. Sóknarþungi Ísland jókst eftir því sem á leið lotunna en það voru Kínverja sem skoruðu afgerandi markið mínútu fyrir leikslok í yfirtölu og svo fjórða markið rétt fyrir leikslok og lokatölur því 4-1.

Íslenska liðið spilaði góða vörn í dag en vantaði nokkuð upp á nákvæmnina í fyrstu sendingunum sem takmarkaði sóknarþungan hjá okkur á köflum. Kínverska liðið er sterkt maður á mann og refsar grimmilega fyrir mistök en svo virðist að Ísland og Kína séu tvö sterkustu liðin á mótinu.

Ísland mætir Taíwan Í dag en leikurinn er kl 21.00 á íslenskum tíma og er sýndur beint hér. Það er síðasti leikur Íslands í riðlakeppninni en með sigri kemst liðið í undanúrslit. Í undanúrslitum mætir þá liðið einu af liðunum í hinum riðlinum og með sigri þar kemst íslenska liðið í úrslitaleik sem gæti þá mögulega verið aftur gegn Kína.