Karfan er tóm.
Tilkynning frá Skautasambandi Íslands
Reykjavík, 15.12.2016
Skautakona ársins 2016
Emilía Rós Ómarsdóttir hefur verið valin Skautakona ársins 2016 af stjórn Skautasambands Íslands. Emilía Rós keppir í listhlaupi á skautum fyrir hönd Skautafélags Akureyrar og er á sínu öðru ári í Unglingaflokki A (Junior). Er þetta í annað sinn sem hún hefur hlotið nafnbótina Skautakona ársins en hún hlaut verðlaunin einnig árið 2015.
Helsta afrek Emilíu Rósar á árinu var stigamet hennar í skori í stuttu prógrami á Vormóti Skautasambands Íslands 2016. Hún hlaut 38.91 stig í stuttu prógrami og 61.31 stig í frjálsu prógrami og var heildarskor hennar á mótinu 100.22 stig. Meðaltal af heildarskori Emilíu Rósar á árinu er 93.09 stig.
Emilía Rós hefur verið virkur keppandi bæði innanlands og utan á árinu. Hún hefur tekið þátt á þremur alþjóðlegum mótum, RIG, Norðurlandamótinu í Svíþjóð og á Junior Grand Prix í Tallin, Eistlandi, í október síðastliðnum. Junior Grand Prix (JGP) er mótaröð á vegum Alþjóða skautasambandsins (ISU).
Þjálfari Emilíu Rósar í gegnum tíðina hefur verið Iveta Reitmayerova en núverandi þjálfari hennar hjá Skautafélagi Akureyrar er Danylo Yefimtsev.
Emilía Rós er kappsfullur íþróttamaður sem leggur sig fram í íþrótt sinni og er yngri iðkendum góð fyrirmynd bæði í framkomu og viðhorfi til íþróttarinnar.
Skautasambandið óskar henni hjartanlega til hamingju með titilinn.
f.h. stjórnar Skautasambands Íslands
_____________________________________
Guðbjört Erlendsdóttir
Formaður