Markaveisla hjá Ásynjum um helgina

Ásynjur fagna marki (mynd: Elvar Pálsson)
Ásynjur fagna marki (mynd: Elvar Pálsson)

Hertz-deild kvenna hélt áfram um helgina með tveimur leikjum þegar SR stúlkur komu norður og mættu Ásynjum á sínum heimavelli. Ásynjur höfðu yfirhöndina allan tímann og létu skotum sínum rigna yfir mark andstæðinganna. Samtals skoruðu Ásynjur 27 mörk í leikjum helgarinnar án þess að SR næði að svara fyrir sig. Álfheiður Sigmarsdóttir, markmaður Skautafélags Reykjavíkur, varði þó vel í báðum leikjunum en átti sannkallaðan stórleik á sunnudeginum þegar hún fékk á sig 100 skot.

Bæði lið mættu heldur fámenn til leiks á laugardeginum og kvarnaðist enn frekar úr báðum liðum í þeim leik. Snemma leiks þurfti Birna Baldursdóttir í liði Ásynja að hætta keppni vegna meiðsla sem tóku sig upp eftir að hún lenti í barningi fyrir framan mark SR. Gestaliðið missti einnig leikmann úr sínum röðum þegar fyrirliðinn Laura Murphy sótti á mikill ferð að marki Ásynja en varnarmaðurinn Guðrún Marín setti öxlina í hana til að verja mark sitt með þeim afleiðingum að Laura missti jafnvægið og rann harkalega í rammann. Þurfti sjúkrabörur til að flytja hana af velli og spilaði hún ekki meir um helgina. Þar sem Laura gat ekki klárað leikinn vegna meiðsla fékk Guðrún Marín ekki heldur að spila meir í fyrri leiknum, reglum samkvæmt, en kom aftur sterk inn á sunnudeginum.

Var leikmannalisti beggja liða því enn fámennari á sunnudeginum. Ásynjur brugðu því á það ráð að spila Guðrúnu Katrínu, sem stóð í markinu á laugardeginum, sem framherja á sunnudeginum til að fylla upp í leikmannahópinn. Hún gerði sér lítið fyrir og skoraði eitt mark og lagði upp annað. Stalla hennar, Fanney Stefánsdóttir, stóð milli stanga Ásynja, í seinni leiknum en hafði lítið að gera líkt og Guðrún í þeim fyrri.

         Með sigrum helgarinnar hafa Ásynjur jafnað Ynjur að stigum á toppi deildarinnar. Ásynjur eru nú með 21 stig, líkt og Ynjur, en eiga þó enn einn leik til góða. Björninn er í þriðja sæti deildarinnar með 4 stig og SR á botni deildarinnar með 2 stig.  Það er því orðið ljóst að Ásynjur og Ynjur, bæði lið Skautafélags Akureyrar, munu mætast í úrslitum í mars. Næsti leikur í Hertz-deild kvenna er strax næsta þriðjudag kl. 19:30, þegar Ásynjur mæta Ynjum. Sá leikur er síðasta viðureign þeirra liða í deildinni og skiptir hann því miklu máli í baráttunni um deildarmeistaratitilinn.

Myndir úr leikjunum eftir Elvar Frey Pálsson má sjá inn á heimasíðu Skautafélags Akureyrar: http://www.sasport.is/ishokki/myndir

Mörk/stoðsendingar Ásynja:

Anna Sonja Ágústsdóttir 8/4

Eva María Karvelsdóttir 4/4

Alda Ólína Arnarsdóttir 3/5

Guðrún Marín Viðarsdóttir 3/2

Linda Brá Sveinsdóttir 2/7

Jónína Margrét Guðbjartsdóttir 2/3

Birna Baldursdóttir 2/2

Guðrún Blöndal 1/6

Guðrún Katrín Gunnarsdóttir 1/1

Rósa Guðjónsdóttir 1/0

Hulda Sigurðardóttir 0/3

Arndís Eggerz 0/1

 

Refsingar Ásynja:

31 mínútur

 

Refsingar SR:

18 mínútur