Karfan er tóm.
Kvennalið SA vann 7-5 sigur á Reykjavík í Hertz-deild kvenna um helgina. Leikurinn var jafnari en oft áður í vetur og var spennandi allt fram á lokamínútur leiksins. SA er með sigrinum þá enþá taplausar í vetur þegar 9 leikir eru spilaðir.
Sigrún Árnadóttir kom Reykjavík yfir snemma leiks en Kolbrún Garðarsdóttir jafnaði leikinn fyrir SA undir lok 1. lotu og staðan var 1-1. Önnur lotan var æsispennandi þar sem liðin skiptust á að skora en Hilma Bergsdóttir kom SA stúlkum yfir með fallegu marki í byrjun lotunnar. Sigrún Árnadóttir var aftur á ferðinni fyrir Reykjavík skömmu síðar og jafnaði leikinn í 2-2. Anna Karen Einisdóttir kom SA þá aftur yfir rétt áður en Kristín Ingadóttir jafnaði aftur fyrir Reykjavík. Katrín Björnsdóttir skoraði fjórða mark SA skömmu síðar og staðan því 4-3 SA í vil en þannig stóð fyrir síðustu lotuna. Apríl Orongan bætti forskot SA stúlkna í yfirtölu þegar um 10 mínútur lifðu leiks og Hilma Bergsdóttir skoraði svo sitt annað mark í leiknum og staðan orðin 6-3. Reykjavíkur stúlkur neituðu að gefast upp en Sigrún Árnadóttir skoraði sitt 3. mark í leiknum og Elín Darko bætti svo við fimmta marki Reykjavíkur þegar 7 mínútur eftir af leiknum. Reykjavíkur liðið freistaði þess að jafna leikinn og tóku markmann sinn útaf fyrir auka sóknarleikmann en það voru SA stúlkur sem refsuðu þegar Silvía Björgvinsdóttir skoraði í tómt markið og tryggði SA sigurinn í leiknum.
Enn eru 3 leikir eftir í Hertz-deild kvenna en þeir fara allir fram syðra. Úrslitakeppnin fer svo fram í apríl.