Karfan er tóm.
SA tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í gærkvöld með 5-1 sigri á Fjölni í þriðja leik úrslitakeppninnar í Hertz-deild kvenna. SA vann einvígið 3-0 og átti sinn besta leik í gærkvöldi en liðið spilaði frábært hokkí og skemmtu áhorfendum með tilþrifum. Íslandsmeistaratitilinn var sá 21. í sögu félagsins.
SA stúlkur mætu tilbúnar til leiks og sett strax pressu á vallarhelmingi Fjölnis en bæði lið fengu nokkur góð færi á upphafs mínútum leiksins sem var frábær skemmtun. SA skoraði fyrsta mark leiksins á 10. mínútu þegar markamaskínan Hilma Bergsdóttir bjó sér til skotfæri framan við mark Fjölnis og hamraði pökkinn milli fóta Birtu í marki Fjölnis. SA leiddi 1-0 eftir fyrstu lotu en Fjölnis stúlkur mættu ákveðnar til leiks í þeirri annarri og settu nokkuð þunga pressu á mark SA en Shawlee Gaudreault var frábær í marki SA eins og hún hefur verið alla úrslitakeppnina og varði hvert færið á fætur öðru. Það voru hins vegar SA sem skoruðu eina mark lotunnar þegar Anna Sonja Ágústsdóttir setti hnitmiðað skot af bláu línunni beint í fjær hornið og kom SA í 2-0. Strax í byrjun þriðju lotu fann Hilma Bergsdóttir svo Berglindi Leifsdóttur óvaldaða framan við mark Fjölnis þar sem hún kom SA í 3-0. Aðeins mínútu síðar vann Jónína uppkast í varnarsvæði Fjölnis á Maríu sem átti fast skot sem aldursforsetinn Jónína náði að fylgja eftir og úr varð laus pökkur sem hin unga og efnilega Sólrún Assa Arnardóttir setti örugglega í mark Fjölnis og kom SA í 3-0. Markið var síðasta hálmstráið fyrir Fjölnisstúlkur sem höfðu greinilega sett mikla orku í aðra lotuna en SA liðið spilaði yfirvegað síðustu mínútur leiksins og nýttu sé skyndisóknir. Inga Aradóttir skoraði svo fimmta mark SA þegar 10 mínútur lifðu leiks með frábæru skoti af bláu línunni efst í markhornið og því kátt í höllinni síðustu mínútur leiksins en Fjölnis stúlkur náðu að koma að einu marki áður en SA fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í 21. Skipti.
SA liðið vann titilinn verskuldað en ekki auðveldlega því allir leikir milli þessara liða voru jafnir allt tímabilið. SA tók skref fram í hverjum leik í úrslitakeppninni og spilaði á mörgum leikmönnum alla úrslitakeppnina. Margir ungir leikmenn spila stór hlutverk í SA liðinu og breiddin mikil. Íslandsmeistaratitillinn var sá 21. í sögu félagsins og var aldursforsetinn Jónína Margrét Guðbjartsdóttir að vinna sinn 21. titil enda spilað í liðinu frá upphafi deildarkeppninnar.