Karfan er tóm.
SA Víkingar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu topplið Esju í gærkvöld, lokatölur 7-2. SA Víkingar minnkuðu þar með forskot Esju á sig í deildinni í 6 stig en Björninn vann á sama tíma SR í Laugardalnum og er ennþá með 5 stiga forskot á Víkinga. Sigurður Sigurðsson var óumdeilanlega maður gærkvöldsins en hann átti stórleik og skoraði þrennu í leiknum en Hafþór Sigrúnarson átti einnig skínandi leik og skoraði tvö mörk.
Esja mæti í leikinn frekar fáliðaðir ef má kalla en náðu varla í 3 línur en SA Víkingar mættu hinsvegar með fullskipað lið. Leikurinn hófst af miklum krafti og bæði lið létu vel finna fyrir sér fyrstu mínútur leiksins. SA Víkingar skoruðu fyrsta markið um miðja lotuna þegar Hafþór Sigrúnarsson fallegt mark en hann þrumaði pekkinum upp í samskeytin í yfirtölu. Sókn Esju jókst eftir því sem leið á lotuna og náðu þeir að jafna metin eftir langa sókn þegar Patrick Podsednicek skoraði úr frákasti af harðfylgi. Undir lok lotunnar náðu Víkingar svo forystunni tilbaka í yfirtölu en þá skoraði Sigurður Sigurðsson í tómt markið eftir frábært spil og góðann undirbúning Andra Más Mikaelssonar.
SA Víkingar mættu beittir í aðra lotuna og létu kné fylgja kviði á meðan Esjumenn virtust pirraðir yfir stöðunni og brutu af sér nánast við hvert tækifæri. SA Víkingar nýttu sér liðsmunninn og náðu 3-1 forystu þegar Andri Mikaelsson kláraði vel útfærða sókn. Um miðja lotuna skoraði Ingvar Jónsson gullfallegt mark þegar hann skautaði upp völlinn og þræddi sig eins og sannur sóknarmaður í gegnum þrjá varnarmenn Esju og þrumaði pekkinum í fjærhornið og kom Víkingum í 4-1. Skömmu síðar bættu Víkingar svo við fimmta markinu þegar Andri Mikaelsson fann Sigurð Sigurðsson óvaldaðan framan við mark Esju og skoraði hann sitt annað mark í leiknum. Esjumenn minnkuðu muninn skömmu síðar í 5-2 þegar Snorri Sigurbjörnsson skoraði með langskoti af bláu línunni og í markið.
Sóknarþungi Esju jókst verulega í þriðjulotunni á meðan Víkingar sátu aftur og reyndu að halda fengnum hlut en sóttu úr skyndisóknum og úr einni þeirri komst Hafþór Sigrúnarson inn fyrir vörn Esju og þræddi pökkinn snyrtilega í netið og staðan orðin vænleg fyrir Víkinga. Esjumenn fengu góð marktækifæri í lotunni en náðu ekki að koma pekkinum nægilega vel á markið en nokkuð virtist dregið af liðinu vegna fámennis. Á síðustu mínútu leiksins var það svo aldursforseti deildarinnar sem kórónaði stórleik sinn þegar fékk hann skautaði upp allann völlinn og stakk bókstaflega varnarmenn Esju af og skoraði af miklu öryggi við ærlegan fögnuð áhorfenda og SA vann því leikinn 7-2
SA Víkingar spiluðu líklega sinn besta heimaleik á tímabilinu í gærkvöld og virðist spilamennskan vera á uppleið jafnt og þétt. Um helgina verða leiknir 4 leikir í Hertz deildinni sunnan heiða en SA Víkingar mæta þá Birninum á laugardag og SR á sunnudag og því gætu vel orðið einhverjar hrókeringar í stöðu liða í deildinni um helgina. Næsti heimaleikur SA Víkingar er 10. desember þegar liðið tekur á móti Birninum.
Hér má finna myndir úr leiknum frá Elvari Frey Pálssyni.
Mörk og stoðsendingar SA Víkinga:
Sigurður Sigurðsson 3/1
Hafþór Sigrúnarsson 2/0
Andri Mikaelsson 1/2
Ingvar Þór Jónsson 1/1
Jussi Sipponen 0/4
Björn Már Jakobsson 0/1
Jussi Suvanto 0/1