Karfan er tóm.
SA Víkingar mættu Esju á laugardag í Hertz-deild karla og endaði leikurinn með sigri Esju í vítakeppni en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 4-4. Esja styrkti þar með stöðu sína á toppnum í deildinni en SA Víkingar misstu dýrmæt stig og eru enn í þriðja sæti deildarinnar með 5 stig að loknum 6 leikjum.
Áhorfendur sem lögðu leið sína í Skautahöllina fengu vissulega mikið fyrir peninginn á laugardag en leikurinn var frábær skemmtun og vel spilaður af báðum liðum. Jafnræði var með liðunum frá byrjun til enda en það voru SA Víkingar sem skoruðu fyrsta markið á 8. mínútu en þar var á ferðinni nýjasti finninn í röðum Víkinga, Mikko Salonen sem fylgdi eftir skoti Jóhanns Leifssonar og kom Víkingum í 1-0. Esja jafnaði leikinn skömmu síðar þegar Matthías Sigurðsson prjónaði sig í gegnum vörn Víkinga og setti pökkinn snyrtilega í netið. Leikurinn var í nokkuð góðu jafnvægi eftir þetta en undir lok lotunnar náðu Esjumenn nokkuð góðum tökum á leiknum og uppskáru mark þegar Konstantyn Sharapov skautaði upp allann völlinn í gegnum vörn Víkinga og var nálægt því að skora en Björn Róbert náði frákastinu og skoraði í opið marki og Esja fór með 2-1 forystu til leikhlés.
Önnur lotan var ekki síðri en sú fyrsta þar sem hraðinn var mikill og liðin sóttu á víxl. Það voru Esjumenn sem voru fyrri til þess að skora en markið kom eftir góða sóknarlotu Esju en Róbert Pálsson fékk þá pökkinn óvaldaður til hliðar við markið og þrumaði pekkinum af fjærstönginni og inn. Víkingar sóttu hart eftir markið og náðu að minnka muninn í eitt mark um miðja lotuna þegar Sigurður Sigurðsson skoraði af harðfylgi eftir góðan undirbúning Ingvars Jónssonar. Jóhann Leifsson jafnaði svo metin þegar 5 mínútur lifðu lotunnar í yfirtölu þegar hann stýrði skoti Hafþórs Sigrúnarsonar í markið. Esja náði stuttu síðar aftur forystunni eftir klaufagang í vörn Víkinga þar sem gleymdist að dekka Andra Sverrisson sem stóð einn framan við mark Víkinga og skoraði auðveldlega í tómt markið.
Þriðja lotan byrjaði vel fyrir Víkinga en Jussi sipponen jafnaði þá metin með snöggu skoti eftir undirbúning Ingvars Jónssonar. Mikil barátta einkenndi liðin þar sem eftir lifði lotunnar og ljóst að bæði lið sóttu til sigurs en hvorugu liðinu tókst að skora fleiri mörk og fór leikurinn í framlengingu. Leikmenn Esju voru líklegri í framlengingunni án þess að ná að skapa sér afgerandi marktækifæri og leikurinn fór í vítakeppni. Jussi Sipponen skoraði fyrsta mark vítakeppninar í öðru víti Vikínga. Í þriðja og síðasta víti Esju skoraði Björn Róbert Sigurðarsson og jafnaði keppnina svo úrslitin réðust í bráðabana vítakeppninnar en þar skoraði Snorri Sigurbjörnsson sigurmarkið og Esja náði aukastigunum tveimur.
Batamerki sjást á leik Víkinga frá byrjun tímabils og ljóst að liðið er smámsaman að komast í betra leikform eftir stuttan undirbúning. Esju menn líta vel út í byrjun tímabils og eru ósigraðir enda með mikla breidd og reynslumikið lið. Næsti leikur SA Víkinga er á heimavelli þriðudaginn 8. nóvember en þá tekur liðið á móti SR.