Karfan er tóm.
Í fyrrakvöld tók Björninn í Grafarvogi á móti Ynjum Skautafélags Akureyrar í Hertz-deild kvenna í íshokkí. Leikurinn var mjög spennandi framan af en í síðustu lotunni sýndu Ynjurnar hvers þær eru megnugar og urðu lokatölur 2-7 Ynjum í vil.
Ynjur hafa sýnt mikla yfirburði í vetur gegn Birninum og kom því öllum að óvörum þegar Björninn skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins tveggja mínútna leik. Nafn markaskorarans kom ekki síður á óvart en þar var á ferðinni Sigrún Agatha Árnadóttir sem ekki hefur sést á ísnum í einhver ár! Hún spilaði þó með Birninum á sínum tíma og einnig með kvennalandsliði Íslands og hefur greinilega engu gleymt. Björninn hélt forystunni lengi vel en undir lok lotunnar tók markaskorarinn Silvía Björgvinsdóttir til sinna ráða og skoraði 2 mörk fyrir Ynjur með stuttu millibili og staðan því 1-2 í fyrsta leikhléi.
Fátt bar til tíðinda framan af annarri lotu, eða þar Sigrún Agatha jafnaði metin fyrir Björninn þegar lotan var hálfnuð. Fleiri urðu mörkin ekki í lotunni og stefndi því í æsispennandi þriðja leikhluta. Það var þó greinilega ekki á dagskrá hjá Ynjunum sem gerðu sér lítið fyrir og skoruðu 4 mörk í lotunni án þess að Björninn næði að svara fyrir sig. Silvía skoraði fyrsta mark lotunnar eftir aðeins 45 sekúndur en var hvergi hætt þrátt fyrir að vera kominn með þrennu og skoraði tvö mörk til viðbótar og endaði því með 5 mörk af þeim 7 sem Ynjur skoruðu. Fyrirliðinn Ragnhildur Kjartansdóttir og Kolbrún María Garðarsdóttir skoruðu sitt markið hvor. Lokatölur því 2-7 eins og áður sagði.
Næsti leikur í Herz deild kvenna verður spilaður á Akureyri þann 27. desember kl. 19:30. Þar munu topplið deildarinnar, Ásynjur og Ynjur, mætast í þriðju viðureign liðanna. Ynjur unnu fyrri leikinn en Ásynjur þann seinni og má því búast við mikilli skemmtun í skautahöllinni á Akureyrir milli jóla og nýjárs!
Mörk og stoðsendingar Ynja:
Silvía Björgvinsdóttir 5/1
Kolbrún Garðarsdóttir 1/1
Ragnhildur Kjartansdóttir 1/1
Hilma Bergsdóttir 0/1
Sunna Björgvinsdóttir 0/1
Refsimínútur Ynja:
4 mín.
Mörk og stoðsendingar Bjarnarins:
Sigrún Agatha Árnadóttir 2/0
Védís Valdemarsdóttir 0/1
Refsimínútur Bjarnarins:
2 mín.