Karfan er tóm.
Um helgina fóru fram tveir leikir í Herz deild kvenna á Akureyri þar sem SA Ásynjur tóku á móti Birninum úr Grafarvogi. Skemmst er frá því að segja að Björninn sá aldrei til sólar og skoruðu heimastúlkur 23 mörk samtals í báðum leikjunum gegn einu marki Bjarnarins. Birna Baldursdóttir var markahæst eftir helgina með 5 mörk en Anna Sonja Ágústsdóttir var stigahæst með 11 stig, þar af 10 stoðsendingar. Skemmtilegast er þó frá því að segja að allir leikmenn Ásynja komust á blað, ýmist með marki, stoðsendingu eða hvoru tveggja.
Fyrri leikurinn fór 14-1 og áttu Ásynjur hátt í 80 skot á mark gegn 5 skotum Bjarnarins, sem komu langt utan af velli. Varnarmenn Ásynja opnuðu markareikninginn snemma í fyrstu lotu leiksins en Guðrún Marín Viðarsdóttir skoraði fyrstu tvö mörkin og Arndís Eggerz það þriðja. Sóknarmaðurinn Guðrún Blöndal skoraði fjórða og síðasta mark lotunnar með gullfallegu þrumuskoti í samskeytin.
Ekki voru liðnar nema 28 sekúndur af annarri lotu þegar Jónína Margrét bæti við fimmta marki Ásynja og Birna Baldursdóttir bætti við því sjötta þegar Ásynjur komust í skyndisókn, þrjár á móti tveimur varnarmönnum Bjarnarins. Aldursforsetinn Hulda Sigurðardóttir skoraði næstu tvö mörk Ásynja og átti svo stoðsendingu á Rósu Guðjónsdóttur sem skoraði síðasta mark Ásynja í lotunni og staðan þá orðin 9-0. Undir lok lotunnar fengu Ásynjur liðsdóm fyrir að vera of margar á ísnum og náðu Bjarnarstúlkur að nýta sér liðsmuninn og minnka muninn í 9-1. Var þar á ferðinni varnarmaðurinn Lena Arnarsdóttir.
Þegar tæpar 5 mínútur voru liðnar af þriðju lotu rataði pökkurinn í 10. sinn í marki Bjarnarins eftir skot frá Rósu Guðjónsdóttur. Birna Baldursdóttir skoraði næstu tvö mörk og fullkomnaði þar með þrennuna en upp úr því fór heldur betur að hitna í kolunum og höfðu dómararnir í nægu að snúast um miðbik lotunnar. Þegar rúmar 11 mínútur voru eftir af leiknum fékk Björninn liðsdóm fyrir að tefja leikinn en þær höfðu þá reynt nokkru sinnum á þolinmæði dómaranna með því að vera lengi að stilla sér upp fyrir dómarakast. Þegar Ásynjur voru manni fleiri var Eva María send í refsiboxið í tvær mínútur fyrir ,,tripping“ eða að fella andstæðinginn með kylfunni og spilaði hvort lið með 4 leikmenn á ísnum í 38 sekúndur, eða þar til sauð upp úr á milli Thelmu Maríu Guðmundsdóttur og Vigdísar Hrannardóttur sem ræddu málin með hnefunum og voru í kjölfarið sendar í refsiboxið í tveggja mínútna kælingu. Guðrún Linda Sigðurðardóttir var á sama tíma send í sturtu fyrir að hafa krosstékkað Thelmu í bakið öllum að óvörum. Tvö mörk í viðbót litu dagsins ljós í lok lotunnar og voru þar á ferðinni Guðrún Blöndal og Thelma María og lokastaðan 14-1.
Mörk og stoðsendingar Ásynja:
Birna Baldursdóttir 3/2
Guðrún Blöndal 2/1
Hulda Sigurðardóttir 2/1
Rósa Guðjónsdóttir 2/1
Guðrún Marín Viðarsdóttir 2/0
Jónína Margrét Guðbjartsdóttir 1/3
Thelma María Guðmundsdóttir 1/3
Arndís Eggerz 1/0
Anna Sonja Ágústsdóttir 0/7
Eva María Karvelsdóttir 0/2
Linda Brá Sveinsdóttir 0/2
Alda Ólína Arnarsdóttir 0/1
Refsimínútur Ásynja:
10 mínútur
Mörk og stoðsendingar Bjarnarins:
Lena Arnarsdóttir 1/0
Karen Þórisdóttir 0/1
Refsimínútur Bjarnarins:
33 mínútur
Seinni leikurinn fór 9-0 Ásynjum í vil en ekki mættu allir leikmenn Bjarnarins til leiks og máttu þær varla við því þar sem þær voru ekki með stóran leikmannahóp fyrir. Aftur var það varnarmaður sem opnaði markareikninginn fyrir Ásynjur en að þessu sinni var það Arndís Eggerz eftir um 5 mínútna leik. Eitthvað gekk Ásynjum þó erfiðlega að koma pekkinum í markið en Birnu tóks það þó loks á 13. mínútu eftir að vera nýbúin að sitja í refsiboxinu í tvær mínútur fyrir ólöglega hindrun á markmann Bjarnarins.
Eva María Karvelsdóttir skoraði tvö mörk í 2. lotu leiksins og Jónína eitt mark og staðan því 5-0 þegar síðasta lotan hófst. Thelma María skoraði snemma í síðustu lotunni og Anna Sonja Ágústsdóttir bætti við marki með skoti frá bláu línunni þegar Ásynjur spiluðu manni fleiri en það var þá Guðrún Linda sem sat í refsiboxinu fyrir „hooking“ eða krækju. Arndís Eggerz og Birna Baldursdóttir bættu við sínu markinu hvor áður en lotan var úti og lokatölur því sem áður sagði 9-0. Óhætt er að segja að þetta hafi ekki verið ferð til fjár fyrir þær sunnlensku en Ásynjur greinilega sjóðheitar. Næsti leikur Ásynja er ekki fyrr en 6. desember en þá munu þær mæta Ynjum Skautafélags Akureyrar. Þar má án efa búast við mikilli skemmtun en Ásynjur þurftu að láta í minni pokan gegn Ynjum í síðustu viðureign liðanna eftir hraðan og spennandi leik.
Næsti leikur deildarinnar er hins vegar næsta laugardag þegar Ynjur taka á móti SR í Skautahöllinni á Akureyri. Síðast þegar liðin mættust á Akureyri náðu Ynjur með naumindum að knýja fram sigur og verður því spennandi að sjá hvað gerist næstu helgi!
Mörk og stoðsendingar Ásynja:
Arndís Eggerz 2/1
Anna Sonja Ágústsdóttir 1/3
Birna Baldursdóttir 2/0
Linda Brá Sveinsdóttir 0/2
Eva María Karvelsdóttir 2/0
Rósa Guðjónsdóttir 0/1
Jónína Guðbjartsdóttir 1/2
Guðrún Blöndal 0/1
Alda Ólína Arnarsdóttir 0/1
Thelma María Guðmundsdóttir 1/0
Refsimínútur Ásynja:
4 mínútur
Refsimínútur Bjarnarins:
4 mínútur