Ynjur enn á toppnum

Berglind skoraði þrjú í leiknum. (mynd: Ási)
Berglind skoraði þrjú í leiknum. (mynd: Ási)

Í gær tóku Ynjur Skautafélags Akureyrar á móti Skautafélagi Reykjavíkur en er þetta í þriðja sinn sem liðin mætast á tímabilinu. Ynjur gefa sífellt meira í með hverri viðureign liðanna og unnu leikinn að þessu sinni með 12 mörkum gegn 2 mörkum SR. Eins og tölurnar gefa til kynna var mikill getumunur á liðunum og áttu Ynjur 60 skot á mark. Mörkin hefðu því getað verið mun fleiri en Álfheiður Sigmarsdóttir varði vel í marki SR.

Ynjur byrjuðu af miklum krafti og kom fyrsta markið eftir um eina og hálfa mínútu en þar var á ferðinni hin unga og efnilega Hilma Bergsdóttir með stoðsendingu frá Berglindi Leifsdóttur. Var þetta hennar fyrsta mark með meistaraflokki enda aðeins 12 ára gömul og að spila sitt fyrsta tímabil með Ynjum.  Stöðug pressa hélt áfram af hálfu Ynja í sókninni og uppskáru annað mark þegar aðeins um þrjár mínútur voru liðnar af leiknum. Var það Apríl Orongan sem skoraði með glæsilegri stoðsendingu frá Kolbrúnu Garðarsdóttur. Silvía Björgvinsdóttir skoraði þriðja mark Ynja með stoðsendingu frá Sunnu Björgvinsdóttur og Kolbrún María skoraði fjórða mark Ynja með stoðsendingum frá Sunnu og Silvíu. Var lotan þá hálfnuð en mörkin urðu ekki fleiri það sem eftir lifði lotunnar og staðan því 4-0 eftir fyrsta leikhluta.

Hinn ungi varnarmaður, Saga Margrét Sigurðardóttir, skoraði strax í byrjun annarrar lotu með nákvæmnisskoti frá bláu línunni.  Stuttu seinna fékk Teresa Snorradóttir tveggja mínútna dóm eftir atgang fyrir framan mark Ynja en lotan einkenndist af brottrekstrum úr báðum liðum. SR náði ekki að nýta sér liðsmuninn en þegar jafnt var orðið í liðum aftur skoraði Sunna Björgvinsdóttir eftir flott samspil með línufélögum  sínum. Þegar lotan var hálfnuð hlaut Teresa annan tveggja mínútna dóm og þegar sá dómur var liðinn fengu Ynjur strax á sig liðsdóm fyrir að vera of margar á ísnum og var það Silvía Björgvinsdóttir sem sat dóminn fyrir liðið. Enn náði SR ekki að nýta sér liðsmuninn heldur var leikmaður SR, Alexandra Hafsteinsdóttir, send í refsiboxið þegar þær höfðu spilað manni fleiri í aðeins rúma mínútu. Þegar Silvía kom svo aftur úr refsiboxinu var hún ekki lengi að nýta sér liðsmuninn og skoraði sitt annað mark í leiknum með stoðsendingu frá Sunnu Björgvinsdóttur og staðan þá orðin 7-0. Þegar um 2 mínútur voru eftir af lotunni tók Alexandra Hafsteinsdóttir góðan sprett og komst framhjá báðum varnarmönnum Ynja. Markmaður Ynja, Birta Þorbjörnsdóttir, varði skotið frá Alexöndru en hún náði sjálf frákastinu og minnkaði þar með muninn í 7-1. Háfri mínútu seinna svaraði þó Kolbrún Garðarstóttir fyrir Ynjur með stoðsendingu frá Silvíu Björgvinsdóttur og reyndist það síðasta mark lotunnar sem endaði 8-1.

Ynjur voru heldur lengur í gang í síðustu lotunni og var Sunna Björgvinsdóttir send í tveggja mínútna refsingu snemma í lotunni en Ynjur virtust fá byr undir báða vængi við mótlætið og skoruðu tvö mörk með stuttu millibili þrátt fyrir að vera manni færri. Voru það þær Berglind og Silvía sem settu sitt markið hvor án stoðsendinga. Þegar um 7 mínútur voru eftir af leiknum náður SR stúlkur að klóra aðeins í bakkann en var þar aftur á ferðinni Alexandra Hafsteinsdóttir. Þrátt fyrir að markatalan hafi verið orðin ansi hagstæð fyrir Ynjur í stöðunni 10-2 voru þær þó ekki hættar enn og gerði Berglind Leifsdóttir sér lítið fyrir og skoraði 2 mörk á þriggja mínútna kafla undir lok leiksins. Lokatölur leiksins urðu því 12-2 Ynjum í vil og þær halda fast í toppsætið í deildinni.

Næsti leikur Ynja fer einnig fram á Akureyri næsta laugardag er þær taka á móti Birninum frá Reykjavík.

Mörk og stoðsendingar Ynja:

Silvía Björgvinsdóttir 3/3

Berglind Leifsdóttir 3/1

Kolbrún Garðarsdóttir 2/2

Sunna Björgvinsdóttir 1/3

Apríl Orangan 1/0

Hilma Bergsdóttir 1/0

Saga Margrét Sigurðardóttir 1/0

Ragnhildur Kjartansdóttir 0/1

 

Refsimínútur Ynja:

8 mínútur

 

Mörk og stoðsendingar SR:

Alexandra Hafsteinsdóttir 2/0

Lisa Groβe 0/1

 

Refsimínútur SR:

2 mínútur