Karfan er tóm.
Í gærkvöldi tókur Ynjur á móti Ásynjum í sannkölluðum Akureyrarslag í Skautahöllinni fyrir norðan. Skautafélag Akureyrar teflir fram tveimur aðskildum liðum í meistaraflokki kvenna en lið Ynja er skipað leikmönnum yngri en 20 ára og lið Ásynja er skipað leikmönnum 20 ára og eldri. Bæði lið voru ósigruð fyrir þessa viðureign því mátti búast við hörkuleik.
Liðin byrjuðu leikinn af miklum krafti og var hart barist allan leikinn. Liðin skiptust á að vera í sókn og reyna að skapa sér færi en það var á 6. mínútu sem Ásynjur skoruðu fyrsta mark leiksins. Það var Birna Baldursdóttir sem kom Ásynjum yfir eftir mikla þrautseigju. Ynjur sóttu þá grimmt að marki Ásynja sem náðu þó að verjast vel. Undir lok fyrstu lotunar náði Sunna Björgvinsdóttir að lauma sér bak við vörn Ásynja og fá langa sendingu frá Silvíu Björgvinsdóttur. Sunna klikkaði ekki á að nýta færið og jafna metin og var staðan því 1-1 eftir fyrstu lotu.
Önnur lota var fjörug og héldu liðin áfram að berjast. Kolbrún María Garðarsdóttir skoraði fyrir Ynjur strax í byrjun lotunnar með stoðsendingu frá Apríl Orangan en aldursforsetinn Hulda Sigurðardóttir svaraði fyrir Ásynjur aðeins 10 sekúndum síðar. Aftur komust Ynjur yfir með fallegu marki frá Silvíu Björgvinsdóttur en Thelma María Guðmundsdóttir jafnaði fljótlega aftur fyrir Ásynjur með stoðsendingu frá Bergþóru Heiðbjört Bergþórsdóttur. Kolbrún María skoraði svo aftur fyrir Ynjur og kom þeim yfir og var það Sunna sem átti stoðsendinguna. Fleiri urðu mörkin ekki í þeirri lotu og staðan því 4-3 Ynjum í vil.
Ynjur voru ekki hættar því þær byrjuðu síðustu lotuna af krafti og skoraði Sunna Björgvinsdóttir sitt annað mark í leiknum úr frákasti eftir skot frá Berglindi Leifsdóttur. Þá fóru Ásynjur heldur betur að sækja í sig veðrið og sóttu hart að marki Ynja. Þær sköpuðu mörg stórhættuleg færi en Ynjur vörðust vel og markmaður Ynja, Birta Þorbjörnsdóttir, átti frábæran leik en þetta er hennar fyrsta tímabil í meistaraflokki kvenna. Þrátt fyrir mörg góð færi þá tókst Ásynjum ekki að setja pökkinn í netið og lokatölur því 5-3 Ynjum í vil. Ynjur halda því sigurgöngu sinni áfram og eru ósigraðar eftir 4 leiki.
Leikurinn var mjög hraður og spennandi og það verður gaman að fylgjast með næstu viðureignum liðanna í vetur. Fleiri myndir frá leiknum má sjá hér.
Mörk og stoðsendingar Ynja:
Sunna Björgvinsdóttir 2/1
Kolbrún María Garðarsdóttir 2/1
Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/1
Teresa Regína Snorradóttir 0/1
Berglind Leifsdóttir 0/1
April Orongan 0/1
Saga Margrét Sigurðardóttir 0/1
Refsimínútur Ynja: 2 mín.
Mörk og stoðsendingar Ásynja:
Birna Baldursdóttir 1/0
Hulda Sigurðardóttir 1/0
Thelma María Guðmundsdóttir 1/0
Bergþóra Heiðbjört Bergþórsdóttir 0/1
Refsimínútur Ásynja: 0 mín.