HM kvenna: Íslenska liðið í 4. sæti

Mynd: EFP
Mynd: EFP


Stelpurnar okkar enduðu í 4. sæti í II. deild B á Heimsmeistaramótinu. Anna Sonja valin besti varnarmaður mótsins.

Sigur og tap íslenska kvennalandsliðsins - stelpnanna okkar - í lokaumferðunum skilaði þeim í 4. sæti þegar upp var staðið. Suður-Kórea fór upp fyrir Ísland, en leikur þessara liða endaði einmitt með sigri gestgjafanna eftir framlengingu og vítakeppni.

Lokaleikur íslenska liðsins var á föstudaginn, en þá mættu þær liði Spánar. Niðurstaðan varð 0-3 tap, en þær spænsku enduðu í 2. sæti mótsins. Birna Baldursdóttir fékk viðurkenningu í lok leiks, en hún var valin maður leiksins. Tölfræði úr leiknum gegn Spánverjum má sjá hér.

Í næstsíðustu umferðinni á fimmtudag vann íslenska liðið það suður-afríska 6-2. Íslenska liðið lenti undir eftir fjögurra mínútna leik, en svaraði síðan með tveimur mörkum seint í fyrsta leikhluta. Fyrst var það Steinunn Sigurgeirsdóttir eftir stoðsendingu frá Önnu Sonju Ágústsdóttur og Söruh Smilhey. Annað mark Íslands gerði Flosrún Vaka Jóhannesdóttir eftir stoðsendingu frá Bergþóru Bergþórsdóttur og Hönnu Rut Heimisdóttur. 

Ekkert var skorað í 2. leikhluta, en Birna Baldursdóttir bætti síðan við þriðja marki Íslands í upphafi 3. leikhluta eftir stoðsendingu Lilju Sigfúsdóttur og Guðrún Blöndal kom Íslandi í 4-1 skömmu síðar eftir stoðendingu frá Söruh Smiley og Lilju Sigfúsdóttur. Þær suður-afrísku minnkuðu muninn í 4-2, en síðan komu tvö mörk íslenska liðsins þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum. Hanna Rut Heimisdóttir skoraði fimmta markið eftir stoðsendingu Silju Gunnlaugsdóttur og Flosrúnar Vöku Jóhannesdóttur og síðan skoraði Linda Brá Sveinsdóttir eftir stoðsendingu Sigríðar Finnbogadóttur. Tölfræði úr leiknum gegn Suður-Afríku má finna hér. Þess má geta að íslenska liðið átti 88 skot að marki í leiknum.

Eftir mótið var Anna Sonja Ágústsdóttir valin besti varnarmaðurinn á mótinu.

Stelpurnar fá ekki langa hvíld því þær komu heim í dag eftir langa ferð frá Suður-Kóreu og á þriðjudagskvöld hefst úrslitakeppni Íslandsmótsins í meistaraflokki kvenna þar sem mætast SA-Ásynjur og lið Bjarnarins.