Ísland með öruggan sigur á Tyrkjum. Ísland mætir Nýja Sjálandi í kvöld kl 20.00!

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí sigraði Tyrkland í gærkvöld með sex mörkum gegn engu. Ísland byrjaði leikinn frábærlega og skoraði 4 mörk í fyrstu lotunni og skoraði Flosrún Jóhannesdóttir þrjú mörk í leiknum.. Ísland er þá komið með tvo sigra úr þremur leikjum en liðið mætir Nýja-Sjálandi í kvöld kl 20.00.

Íslenska liðið kom ákaflega einbeitt til leiks í gærkvöldi og setti strax í flug gírinn. Sunna Björgvinsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins en Flosrún Jóhannesdóttir bætti við tveimur mörkum og Þorbjörg Geirsdóttir einu áður en flautað var til fyrsta leikhlés. Íslenska liðið kom afslappað til leiks í annarri lotunni enda staðan góð en var þó alltaf mun sterkari aðilinn og fengu urmul af góðum færum en markvörður Tyrkja stóð vaktina vel. Í þriðju lotunni datt spilið aðeins niður en Eva Karvelsdóttir bætti við fimmta marki Ísland um miðja lotuna og Flosrún Jóhannesdóttir fullkomnaði svo þrennuna sína og bætti við sjötta marki Íslands aðeins 4. Sekúndum fyrir leikslok. Guðlaug Þorsteinsdóttir stóð í marki Íslands í gærkvöld og átti stórleik og hélt markinu hreinu og var fyrir vikið valinn besti leikmaður liðsins í leiknum.

Ísland mætir Nýja-Sjálandi í kvöld kl. 20.00 en leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið en Ísland er nú í öðru sæti riðilsins með 6 stig og Nýja Sjáland í því fjórða með 4 stig. 

Guðlaug Þorsteinsdóttir markvörður Íslands. (mynd: Elvar Freyr Pálsson)