Næsta krullumót: Tvenndarkeppni (Mixed Doubles) hefst 9. apríl

Eins og undanfarin ár heldur Krulludeildin minningarmót um Marjo Kristinsson. Mótið verður með "mixed doubles" fyrirkomulagi, þ.e. tveggja manna lið og hefst miðvikudagskvöldið 9. apríl. Skráningu lýkur mánudagskvöldið 7. apríl. REGLUR Á ÍSLENSKU, SJÁ NEÐST Í ÞESSARI FRÉTT.

Ekkert þátttökugjald er í mótið. Síðasti skráningardagur í mótið er mánudagurinn 7. apríl, skráningar sendist á netfangið hallgrimur@isl.is en einnig er hægt að skrá lið til leiks hjá Hallgrími formanni í Skautahöllinni á mánudagskvöldið. Keppt er í tveggja manna liðum en ráðlegt er að hvert lið hafi þriðja mann til vara. Það er þó að sjálfsögðu undir hverju liði komið. Í reglum fyrir tvenndarkeppni segir að liðsmenn þurfi að vera hvor af sínu kyni en vegna skorts á kvenfólki í krullunni hér er leyfilegt að báðir leikmenn séu af sama kyni.

Leikdagar verða samtals fimm: 9., 14., 16., 21. og 23. apríl en keppnisfyrirkomulagið mun taka mið af fjölda liða sem skráð verða til leiks. Einhvers konar riðlakeppni er þó líklegust með úrslitaleikjum síðasta keppniskvöldið.

Tvenndarkeppni (mixed doubles) er nýtt keppnisfyrirkomulag og fór fyrsta Heimsmeistaramótið með þessu fyrirkomulagi fram í Finnlandi nú í mars. Alþjóða krullusambandið samdi reglur fyrir þessa tegund krullunnar í fyrra og eru þær hluti af reglubók sambandsins (bls. 36), sjá reglurnar á ensku hér: http://www.worldcurling.org/images/PDF/worldcurling-rulesofplay.pdf og þann 11. október 2007 birti sambandið reglurnar sérstaklega á vef sínum ásamt skýringum/túlkunum, sjá hér: http://www.worldcurling.org/images/PDF/wcfweb_mixeddubrules.pdf.

Reglurnar á íslensku - smellið her.