Stjórn hokkídeildar endurkjörin, nýr þjálfari mfl. karla

Mynd: Elvar Freyr Pálsson
Mynd: Elvar Freyr Pálsson


Aðalfundur Íshokkídeildar SA var haldinn í Skautahöllinni á Akureyri í gærkvöldi. Stjórn deildarinnar var endurkjörin. Nýr þjálfari ráðinn fyrir meistaraflokk karla.

Reynir Sigurðsson og Ólöf Björk Sigurðardóttir fóru yfir starfsemina 2012 og stöðu fjármála eftir árið. Kosningar voru fljótafgreiddar því öll stjórnin gaf kost á sér áfram og engin mótframboð, heldur stjórnin endurkjörin með lófaklappi.

Margt var rætt undir liðnum önnur mál og farið vítt og breitt yfir starfsemi deildarinnar í fortíð, nútíð og framtíð. Fyrir liggur að fulltrúar SA í stjórn Íshokkísambands Íslands gefa ekki kost á sér í þau embætti áfram og því liggur fyrir að finna nýtt norðanfólk í þá stjórn. Rætt var um komandi keppnistímabil og þau verkefni sem framundan eru, meðal annars var mikið rætt um dómaramál og voru fundarmenn sammála um að gera þurfi átak til að fá inn fleiri dómara í meistaraflokksleiki.

Fram kom á fundinum að stjórn deildarinnar hefur ráðið nýjan þjálfara fyrir meistaraflokk karla, en Ingvar Þór Jónsson, sem tók að sér starfið tímabundið fyrir síðastliðið tímabil, gaf ekki kost á sér í það starf áfram. Í hans stað kemur Richard Tathtinen, en hann er hokkíáhugafólki hér á landi góðu kunnur. Við stefnum að því að kynna Richard betur til leiks hér á heimasíðunni síðar. Á fundinum kom einnig fram að hræringar eru í leikmannamálum, meðal annars hefur Ómar Smári Skúlason markvörður nú yfirgefið liðið og haldið af landi brott.