Karfan er tóm.
Jólin nálgast og finnst mörgum aðdragandi jólanna og jólin vera dásamlegasti tími ársins. Einn og átta eru væntanlega farnir að búa sig undir ferð til byggða, enda gjafmildir gaurar þar á ferð. Gestgjafarnir í Egilshöllinni voru líka gjafmildir í gær og mörkin: 1 og 8!
Ótrúlegt, en satt. Víkingar sóttu ekki aðeins sigur í Egilshöllina í gær heldur hreinlega kjöldrógu þeir fjölskipað lið Bjarnarins og sigruðu með sjö marka mun!
Fyrsti leikhlutinn var markalaus, en Víkingar hreinlega átu Björninn upp til agna í öðrum leikhluta, nema hausinn, því hausinn var ekki með, eins og fram kom í viðtali við aðstoðarþjálfara Bjarnarins í frétt á mbl.is eftir leikinn.
Annar leikhlutinn var ekki leikur Bjarnarins að Víkingum heldur kattarins að músinni. Víkingar röðuðu inn mörkum frá upphafi leikhlutans til loka hans. Staðan var orðin 0-6 þegar flautan gall og Bjarnarmenn fengu smá frið frá sókndjörfum Víkingum á meðan svellið var heflað.
En þrátt fyrir hlé og tóm til að ráða ráðum sínum gengu Bjarnarmenn aftur á sama vegginn þegar þeir komu til þriðja leikhluta. Víkingar sáu um að skora og komust í átta marka forystu áður en Ólafur Björnsson skoraði eina mark heimamanna um tíu mínútum fyrir leikslok. Úrslitin: Björninn - Víkingar 1-8 (0-0, 0-6, 1-2).
Ben DiMarco var atkvæðamikill í liði Víkinga, skoraði tvö mörk og átti fimm stoðsendingar. Og jafnvel markvörðurinn, Rett Vossler, átti stoðsendingu!
Mörk/stoðsendingar
Björninn
Ólafur Björnsson 1/0
Birkir Árnason 0/1
Refsimínútur: 6
Varin skot: 18
Víkingar
Ben DiMarco 2/5
Andri Freyr Sverrisson 2/1
Gunnar Darri Sigurðsson 1/1
Ingvar Þór Jónsson 1/1
Jóhann Már Leifsson 1/0
Stefán Hrafnsson 1/0
Sigurður Reynisson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1
Rett Vossler 0/1
Refsimínútur: 22
Varin skot: 25
Næsti leikur Víkinga verður á heimavelli gegn Fálkum SR laugardaginn 14. desember. Næsti leikur í mfl. karla á Akureyri er hins vegar núna á laugardaginn, 30. nóvember, þegar Jötnar fá SR í heimsókn. Sá leikur hefst kl. 17.30.