Akureyrarmótið: Riddarar héldu lífi í titilvoninni

Riddarar sigruðu Mammúta í kvöld. Næstum hreinn úrslitaleikur verður á milli Riddara og Fífanna í lokaumferðinni.

Riddarar komust í 5-1 gegn Mammútum en Mammútar jöfnuðu 5-5 með því að skora fjögur stig í næstsíðustu umferðinni. Riddarar svöruðu hins vegar með tveimur stigum í lokaumferðinni og unnu leikinn, 7-5. Til gamans má geta þess að í kvöld var gerð dálítil tilraun. Leikurinn var sendur beint út á netinu í gegnum vefmyndavél og tekinn upp jafnframt. Reyndar klikkaði upptakan aðeins þannig að aðeins er til upptaka af þremur síðustu umferðunum. Nokkuð vantar upp á myndgæðin auk þess sem aðeins var notuð ein kyrrstæð myndavél þannig að lítið sést á þeim enda brautarinnar sem er fjær myndavélinni. Einnig er erfitt að greina sundur grænu og bláu steinana. Upptökuna er hægt að skoða á netinu -sjá tengil hér neðst í fréttinni.

En þá að stöðunni í mótinu og möguleikum liðanna í lokaumferðinnni. Með sigrinum eiga Riddarar enn möguleika á að vinna mótið, annars vegar ef liðið vinnur Fífurnar og Víkingar tapa fyrir Mammútum. Hinn möguleiki Riddara liggur í því að þeir vinni Fífurnar og ef Víkingar vinna Mammúta að þá verði munurinn á skoti (LSD) þeirra og Fífanna meiri en 78 sentímetrar. Ef munurinn verður nákvæmlega 78 sentímetrar í þessari stöðu enda liðin hnífjöfn.

Fífurnar geta tryggt sér Akureyrarmeistaratitilinn með því einfaldlega að vinna Riddara og ljúka mótinu með fullu húsi. Fífurnar geta þó einnig unnið mótið þó svo liðið myndi tapa fyrir Riddurum. Það sem einnig þyrfti til svo Fífurnar hrósuðu sigri væri að Víkingar ynnu Mammúta og að munurinn á skoti (LSD) Fífanna og Riddara í lokaumferðinni yrði minni en 78 sentímetrar.

Víkingar eiga enn möguleika á að ná öðru sætinu, verða þá að vinna Mammúta og vonast til að Fífurnar vinni Riddara eða þá, ef Riddarar vinna Fífurnar, að munruinn á skoti (LSD) þeirra og Riddaranna verði minni en 130 sentímetrar, þ.e. þeir mega vera allt að 130 sentímetrum fjær miðjunni en Víkingar í þessari stöðu.

Í öllu falli verða áðurnefnd lið í þremur efstu sætunum því hvorki Fálkar, Mammútar né Garpar eiga möguleika á að ná þessum liðum.

Lokaumferðin fer fram mánudagskvöldið 18. október:

Braut 2: Mammútar - Víkingar
Braut 4: Fífurnar - Riddarar
Braut 5: Garpar - Fálkar

Stöðu og úrslit allra leikja má finna í excel-skjali, sjá tengil hér að neðan.