Akureyrarmótið: Tvær umferðir eftir, níu lið eiga möguleika á titlinum

Áttunda og næstsíðasta umferðin í Akureyrarmótinu í krullu 2007 fer fram í Skautahöllinni í kvöld.

Keppnin er mjög jöfn svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Af þeim tíu liðum sem taka þátt er aðeins eitt sem ekki á fræðilegan möguleika á að vinna mótið. Ef úrslit leikja yrðu hagstæð liðunum þremur (Bragðarefum, Svarta genginu og Mammútum) sem eru núna með 6 stig í 7.-9. sæti gæti eitthvert þeirra unnið mótið með því að fara í 10 stig en þá yrðu nokkur lið jöfn með 10 stig og nokkur með 9 stig. Ef til vill má segja að ekki séu miklar líkur á að þetta gerist en engu að síður er þessi möguleiki fyrir hendi og maður skyldi aldrei afskrifa sigur of snemma því hið óvænta getur gerst.

Leikir kvöldsins gætu orðið spennandi. Liðin í fjórum efstu sætunum eigast við innbyrðis, Víkingar eru efstir og leika gegn Görpum sem eru í fjórða sæti og liðin í öðru og þriðja sæti, Norðan 12 og Kústarnir, eigast við.

Leikir 8. umferðar:

Braut 2: Fífurnar - Bragðarefir
Braut 3: Norðan 12 - Kústarnir
Braut 4: Mammútar - Svarta gengið
Braut 5: Garpar - Víkingar
Braut 6: Riddarar - Skytturnar