Ásynjur með fimm marka sigur

Mynd: Elvar Freyr Pálsson (12.01.2013)
Mynd: Elvar Freyr Pálsson (12.01.2013)

 

Ásynjur sigruðu Ynjur í mfl. kvenna á Íslandsmótinu í íshokkí í kvöld og eru því enn ósigraðar. 

Eftir að hafa skrifað, skráð og kynnt samtals 20 mörk í síðasta leik þegar Ásynjur mættu SR voru það nokkur viðbrigði að mæta í þennan leik og ekkert var skorað fyrr en eftir rúmlega 13 mínútna leik. Þar var á ferðinni Sólveig Gærdbo Smáradóttir fyrir Ásynjur. Þetta reyndist eina markið í fyrsta leikhlutanum.

Í öðrum leikhluta bættu Jónína Guðbjartsdóttir og Guðrún Blöndal við tveimur mörkum og síðan þær Anna Sonja Ágústsdóttir og Linda Brá Sveinsdóttir í þeim þriðja. Ynjum tókst ekki að svara fyrir sig þrátt fyrir nokkur góð færi, en það verður að segja þeim til afsökunar að lið þeirra var nokkuð laskað í kvöld, meiðsli og annað sem settu strik í reikninginn. Úrslitin: Ynjur - Ásynjur 0-5 (0-1, 0-2, 0-2).

Með sigrinum eru Ásynjur komnar í 28 stig og eiga eftir tvo leiki í deildinni. Ef fréttaritara reiknast rétt til er deildarmeistaratitillinn þar með í höfn hjá Ásynjum því næstar á eftir þeim koma Ynjur með 14 stig og eiga eftir fjóra leiki, geta því farið í 26 stig með því að vinna þá leiki sem eftir eru.

Næstu leikir Ásynja eru sunnudaginn 27. janúar þegar Ásynjur sækja SR heim í Laugardalinn og svo fimmtudaginn 31. janúar þegar Ásynjur fá Björninn í heimsókn. Næstu leikir Ynja eru laugardaginn 9. febrúar þegar þær fá Björninn í heimsókn og svo þriðjudaginn 12. febrúar þegar SR kemur norður. Á vef ÍHÍ má sjá mótaskrá með síðustu breytingum.

Mörk/stoðsendingar
Ynjur
Refsingar: 2 mínútur
Varin skot: 15 

Ásynjur
Sólveig Gærdbo Smáradóttir 1/2
Linda Brá Sveinsdóttir 1/1
Jónína Guðbjartsdóttir 1/0
Guðrún Blöndal 1/0
Anna Sonja Ágústsdóttir 1/0
Birna Baldursdóttir 0/1
Refsingar: 4 mínútur
Varin skokt: 13