Karfan er tóm.
Um helgina spiluðu meistaraflokks liðin okkar leiki í borginni en Ásynjur sigruðu SR með 15 mörkum gegn tveimur á meðan Víkingar steinlágu fyrir Birninum, lokatölur 5-0.
Ásynjur byrjuðu leikinn í Laugardal betur og náðu forystu eftir um 5 mínútna leik með marki frá Silvíu Björgvinssdóttur. SR-ingar jöfnuðu metin um miðja fyrstu lotu en Ásynjur tóku aftur forystu á 14. mínútu með marki frá Kolbrúnu Garðarsdóttur og bættu um betur aðeins 13. sekúndum síðar með marki frá Guðrúnu Viðarsdóttur. SR minnkaði muninn í 3-2 í byrjun annarrar lotu. Ásynjur skoruðu næsta mark en þar var að verki hin öfluga markverja Elise Valjaots sem spilaði leikinn sem útispilari og skoraði tvö mörk í leiknum. Ásynjur litu aldrei til baka eftir þetta og skoruðu næstu 11 mörk og sigldu öruggum sigri í höfn. Öflugastar í markaskorun í leiknum voru Silvía Björgvinsdóttir með 6 mörk í, Guðrún viðarsdóttir skoraði 4 og Kolbrún Garðarsdóttir skoraði 2 en átti auk þess 6 stoðsendingar.
Ásynjur náðu með sigrinum 7 stiga forskoti á Björninn en Ásynjur mæta Ynjum í kvöld kl 19.00.
Víkingar áttu heldur verri dag í Egilshöll á sama tíma. Víkingar lögðu af stað með aðeins tvær sóknarlínur en margir sterkir póstar voru fjarverandi að þessu sinni. Það virtist þó ekki ætla að há þeim í byrjun en Víkingar stjórnuðu leiknum frá fyrstu mínútu og létu skotinn rigna á mark Bjarnarins. Björninn skoraði eina mark lotunnar í einni af fáum sóknum sínum í lotunni. Önnur lotann byrjaði ekki vel fyrir Víkinga Björninn skoraði mjög snemma eftir kæruleysislegann varnarleik Víkinga. Undir miðbik lotunnar áttu Víkingar svo mjög skrautlega innáskiptingu á meðan Barnarmenn skautuðu upp völlinn 3 á móti einum varnarmanni og spiluðu pekkinum oft á milli sín og lögðu í opið markið án þess að nokkur hjálparvörn kæmi til og róðurinn orðinn virkilega erfiður yfir Víkinga. Víkingar héldu þó áfram að sækja en sóttu kannski of ákaft og Björninn gekk á lagið og bætti við tveimur mörkum án þess að Víkingar gátu rönd við reist. Það má segja að varnarleikur Víkinga hafi verið í molum oft á tíðum en fáir sóknarmenn Víkinga gáfu varnarmönnum litla sem enga hjálp í leiknum þó svo sóknarleikurinn hafi litið vel út þá var hann ekki nægilega skilvirkur. Víkingar byrja nýja árið illa en fá tækifæri til þess að rétta hlut sinn þriðjudaginn 13. janúar þegar þeir mæta SR í skautahöllinni á Akureyri.