Karfan er tóm.
Það hefur oft sést fallegra hokkí í skautahöllinni heldur en í gærkvöldi, laugardagskvöld, þegar Ásynjur tóku á móti Reykjavíkurstúlkum. Þetta var síðasti leikur Ásynja fyrir úrslitakeppnina sem hefst á þriðjudagskvöldið. Ásynjur mættu óvenju fjölmennar þrátt fyrir meiðsli en Guðrún Blöndal og Sólveig Gærdbo Smáradóttir spiluðu með eftir töluvert hlé.
Fyrsta lota var tíðindalítil, mikið var um mistök hjá báðum liðum og Ásynjum gekk illa að ná góðu spili. Sarah kom þeim þó yfir þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar af leiknum með lúmsku skoti. Jónína kom þeim svo í 2-0 þegar rúmar sex mínútur voru eftir af lotunni eftir hasar fyrir framan mark Reykjavíkurstúlkna.
Önnur lota byrjaði eins og sú fyrsta hafði verið, Ásynjum gekk illa að halda pekkinum inn í sóknarsvæðinu og áttu mikið af misheppnuðum sendingum. Þegar á leið lotuna fóru þær þó að ná betra spili og þegar tæpar 3 mínútur voru eftir af lotunni skoraði Bergþóra og Sólveig bætti fjórða markinu við þegar rúm hálf mínúta var til leikhlés.
Þegar tæpar sjö mínútur voru liðnar af þriðju lotu skoraði Díana Mjöll gott mark og kom Ásynjum í 5-0. Þegar lotan var rúmlega hálfnuð var Guðrún Blöndal send út af fyrir ólöglegan búnað en kylfan hennar hafði brotnað. Reykjavíkurliðið nýtti sér liðsmuninn og skoraði sitt fyrsta og eina mark í yfirtölunni. Jónína innsiglaði síðan sigur Ásynja þegar tæpar fimm mínútur voru eftir af lotunni, lokastaðan 6-1.
Bart Moran, þjálfari Ásynja sagði eftir leikinn að leikurinn hefði aldrei náð að flæða vel en bæði lið hefðu barist vel. Ásynjur hefðu haft yfirhöndina allan leikinn og stjórnað honum þó Reykjavíkurliðið hefði átt sína spretti. Þær hefðu þó ekki ráðið við ítrekaðar sóknir Ásynja eins og lokatölur báru með sér.
Mörk (stoðsendingar): Jónína 2, Sarah 1 (3), Bergþóra 1 (2), Sólveig 1, Díana 1, Thelma (2), Anna Sonja (1) og Harpa (1)