Karfan er tóm.
SA Ásynjur sigruðu Björninn í fyrsta leik úrslitaeinvígisins í kvennaflokki í gær, lokatölur 9-1. Silvía Björgvinsdóttir skoraði fjögur mörk í leiknum ásamt því að leggja upp tvö. Ásynjur geta nú tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á fimmtudaginn í Egilshöll.
Bjarnarstelpur áttu í vandræðum með að manna lið sitt að einhverjum ástæðum í gærkvöld en í liðið vantaði meðal annarra Hrund Thorlacius og Védísi Valdemarsdóttur. Ásynjur voru aftur á móti fullskiptaðar með þrjár má segja jafn sterkar línur.
Ásynjur byrjuðu leikinn með krafti og sóttu linnulaust fyrstu mínúturnar. Spilið gekk hratt upp völlinn og vörn Bjarnarins virtist engan vegin geta stöðvað Ásynjur frá því að komast að markinu og ná skotum. Það var því samkvæmt gangi leiksins að Ásynjur skoruðu fyrsta markið í leiknum. Markið kom eftir gott spil í sóknarsvæðinu sem endaði á skoti frá Jónínu Guðbjartsdóttur af bláu línunni og Karítas í marki Bjarnarins varði en Guðrún Blöndal hirti frákastið lagði pökkinn auðveldlega í netið. Á 6 mínútna kafla skoruðu Ásynjur 4 mörk og gerðu út um leikinn. Katrín Ryan skoraði annað mark Ásynja með skoti af stuttu færi eftir góðann undirbúning Silvíu Björgvinssdóttur. Birna Baldursdóttir skoraði skemmtilegt mark með bakhönd í gegnum klofið á sjálfri sér og markverði Bjarnarins. Þá skoraði Silvía Björgvinsdóttir stórglæsilegt mark þó svo Ásynjur spiluðu manni færri þar sem hún óð upp völlinn og tróð sér á milli tveggja varnarmanna áður en hún sólaði markmanninn og skoraði örugglega. Staðan 4-0 eftir fyrstu lotu. Ásynjur héldu þó áfram að pressa í annarri lotu og uppskáru eftir um 5 mínútna leik en þá skoraði Silvía sitt annað mark en það var einnig stórglæsilegt þar sem hún sólaði þá nánast alla vörn Bjarnarins og renndi pekkinum örugglega í markið. Frábært einstaklingsframtak en hún var allt í öllu í leik Ásynja í gærkvöld. Ásynjur skoruðu svo annað mark meðan þær spiluðu í undirtölu en það skoraði Linda Brá Sveinsdóttir með frábæru skoti upp í markhornið eftir að hafa stolið pekkinum af Bjarnarstelpum í varnarsvæði þeirra. Staðan 6-0 eftir tvær lotur og nánast formsatriði að klára leikinn úr þessu. Ásynjur skoruðu fyrsta mark þriðju lotunnar í yfirtölu en þá létu Jónína Guðbjartsdóttir og Guðrún Blöndal pökkinn ganga vel á milli sín sem endaði með þríhyrningspili á Lindu Brá Sveinsdóttur sem kláraði vel úr þröngu færi. Silvía Björgvinsdóttir var ekki hætt en hún vann pökkinn úr uppkastinu, skautaði utan á vörn Bjarnarins og renndi pekkinum milli fóta markvarðar Bjarnarins. Björninn skoraði svo sitt eina mark í leiknum í yfirtölu með skoti af bláu línunni sem Maríana Birgisdóttir stýrði í netið. Silvía Björgvinsdóttir kórónaði svo stórleik sinn með sínu fjórða marki í leiknum og enn og aftur klobbaði hún markvörðinn úr nokkuð þröngu færi.
Stórflottur leikur hjá Ásynjum í gærkvöld sem stefna hraðbyri á Íslandsmeistaratitilinn. Liðið hefur sjaldnast litið betur út og breiddin í liðinu er mikil. Ungu stelpurnar hafa tekið stórstígum framförum í vetur og spila með miklu sjálfstrausti þrátt fyrir ungann aldur. Allt liðið spilaði vel í gær en enginn betur en Silvía Björgvinsdóttir sem var klárlega maður leiksins. Næsti leikur er á fimmtudag en sá leikur fer fram í Egilshöll og geta Ásynjur því tryggt sér titilinn með sigri. Leikinn frá í gær er hægt að horfa á hér.
Mörk/stoðsendingar SA:
Silvía Rán Björgvinsdóttir 4/2
Linda Brá Sveinsdóttir 2/0
Birna Baldursdóttir 1/1
Guðrún Blöndal 1/1
Katrín Ryan 1/0
Jónína M. Guðbjartsdóttir 0/3
Eva María Karvelsdóttir 0/1
Refsingar SA: 20 mínútur
Mörk/stoðsendingar Björninn:
Maríana P. Birgisdóttir 1/0
Kristín Ómarsdóttir 0/1
Berglind Gunnarsdóttir 0/1
Refsingar Bjarnarins: 16 mínútur.