Karfan er tóm.
Ásynjur sigruðu Ynjur í gærkvöld, lokatölur 3-2. Liðin hafa því sætaskipti á toppi deildarinnar eftir leikinn en Ásynjur hafa nú 16 stig en Ynjur 14 stig. Leikurinn stóð fullkomlega undir væntingum en það má segja ótrúlegt hvað liðin eru jöfn og keppnin hörð. Leikurinn var einnig merkilegur fyrir þær sakir að þar mættust mæðgurnar Saga Margrét Sigurðardóttir í Ynjum og Guðrún Blöndal Ásynjum í fyrsta skipti á keppnisvellinum í Íslandsmóti og má segja að reynslan hafi sigrað í þetta sinn.
Ásynjur endurheimtu þær stöllur Guðrúni Blöndal og Birnu Baldursdóttur frá fyrra einvígi liðanna á meðan Ynjur höfðu bætt við sig Korbrúni Garðarsdóttur, Berglindi Leifsdóttur og Guðmundu Stefánsdóttur. Leikurinn byrjaði fjörlega en Ynjur náðu yfirhöndinni eftir aðeins tveggja mínútna leik með marki Silvíu Björgvinsdóttur. Nokkuð jafnræði var með liðnum í fyrstu lotunni en markmennirnir Elise Maria í marki Ásynja og Heiðrún Steindórsdóttir hjá Ynjum sýndu sýndu oft á tíðum frábær tilþrif.
Ynjur voru sterkari aðilinn lengst af í annarri lotunni en það voru Ásynjur sem skoruðu einu tvö mörk lotunnar með stuttu millibili. Linda Sveinsdóttir skoraði fyrst skrautlegt mark þar sem skot hennar fór í kylfu og skopaði milli fóta Heiðrúnar í marki Ynja en það síðara skoraði Alda Arnarsdóttir úr frákasti.
Þriðja lotann var æsispennandi og Ásynjum óx ásmegin en Ynjur gáfust þó ekki upp. Um miðbik lotunnar skoruðu Ynjur mark í yfirtölu og jöfnuðu leikinn en þar var á ferðinni Kolbrún Garðarsdóttir með góðu skoti af bláu línunni. Það var svo Linda Brá sem skoraði sigurmark leiksins þegar rétt rúmar 6 mínútur lifðu leiks úr frákasti eftir frábærann undirbúning Söruh Smiley. Ynjur fengu ágætis færi undir lokin til þess að jafna leikinn en guðirnir voru þeim ekki hliðhollir að þessu sinni. Hér má sjá nokkrar vel valdar myndir úr leiknum í gær frá Elvari Pálssyni.