Karfan er tóm.
Ásynjur tóku á móti Birninum í lokaleik sínum í deildarkeppninni og kórónuðu frábært tímabil með
öruggum sigri. Liðið vann deildarkeppnina örugglega, tók 34 af 36 stigum sem í boði voru.
Ásynjur fóru hægt af stað í markaskoruninni, eins og stundum áður. Annan leikinn í röð var það Sarah Smiley sem opnaði markareikning Ásynja. Hún er að koma til baka eftir meiðsli, spilaði einn leikhluta gegn SR fyrir sunnan um liðna helgi og svo um það bil einn og hálfan leikhluta gegn Birninum í gærkvöldi. Sarah skoraði eftir tæplega átta mínútna leik, en það var síðan ekki fyrr en undir lok fyrsta leikhluta sem annað markið kom, og svo það þriðja strax á eftir. Fyrst skoraði Hrund Thorlacius og síðan Guðrún Blöndal.
Ásynjur skoruðu svo fjögur mörk til viðbótar í öðrum leikhluta áður en Bjarnarstelpur minnkuðu muninn í 7-1. Fyrst skoraði Birna Baldursdóttir, þá Hrund sitt annað mark, Anna Sonja Ágústsdóttir og Silja Rún Gunnlaugsdóttir.
Á fyrstu fimm mínútum þriðja leikhluta komu svo þrjú mörk til viðbótar frá Ásynjum, Anna Sonja gerði sitt annað mark, Védis Valdemarsdóttir skoraði 9. mark Ásynja, síðan Elísabet Kristjánsdóttir það tíunda. Björninn hætti ekki baráttunni þrátt fyrir vonlausa stöðu og Lilja Sigfúsdóttir minnkaði muninn í 10-2, en Birna Baldursdóttir skoraði sitt annað mark og 11. mark Ásynja á lokamínútunni. Lokatölur: Ásynjur - Björninn 11-2 (3-0, 4-1, 4-1).
Mörk/stoðsendingar
Ásynjur
Hrund Thorlacius 2/2
Birna Baldursdóttir 2/1
Anna Sonja Ágústsdóttir 2/0
Védís Áslaug Beck Valdemarsdóttir 1/2
Silja Rún Gunnlaugsdóttir 1/1
Sarah Smiley 1/0
Elísabet Kristjánsdóttir 1/0
Guðrún Blöndal 0/4
Jónína Guðbjartsdóttir 0/1
Hrönn Kristjánsdóttir 0/1
Refsingar: 6 mínútur
Varin skot: 10 (1+7+2)
Björninn
Karen Þórisdóttir 1/0
Steinunn Sigurgeirsdóttir 0/1
Lilja María Sigfúsdóttir 1/1
Elva Hjálmarsdóttir 0/1
Refsingar: 6 mínútur
Varin skot: 31 (14+9+8)
Þetta var lokaleikur Ásynja í deildinni, en þær hafa fyrir nokkru tryggt sér deildarmeistaratitilinn. Ásynjur ljúka deildarkeppninni með 34 stig af 36 mögulegum. Einu töpuðu stigin voru gegn hinu SA-liðinu, Ynjum, en tvívegis fóru leikir þessara liða í framlengingu þar sem Ásynjur tryggðu sér aukastigið með gullmarki.
Þó svo mótstaðan hafi verið mismikil í leikjum vetrarins er ástæða til að hrósa Ásynjum fyrir þennan glæsilega árangur og óskar heimasíðan þeim hér með til hamingju með deildarmeistaratitilinn. Því miður láðist kynni leiksins að geta þessa frábæra árangurs í hita leiksins í gær.
Bein atvikalýsing
Staðan á vef ÍHÍ
Næsti leikur í mfl. kvenna verður laugardaginn 9. febrúar þegar Ynjur taka á móti Birninum.