Karfan er tóm.
Ásynjur sigruðu SR, 3-2, í mfl. kvenna á Íslandsmótinu í íshokkí í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld.
Ásynjur eru sem fyrr á toppnum með 11 stig eftir fjóra leiki.
Eins og áður fengu SR-ingar liðsstyrk, einn leikmann úr Birninum, þrjá útileikmenn úr Ynjum, og Guðlaugu Þorsteinsdóttur, markvörð Ynjanna. Segja má að Guðlaug hafi gert leikinn spennandi með frábærri markvörslu. Annan leikinn í röð stóð Heiðrún Ósk Steindórsdóttir í marki Ásynja í fjarveru Írisar Hafberg, en Heiðrún er aðeins nýbyrjuð að æfa mark með heldri konunum í Valkyrjum.
SR-stelpurnar eru að sýna framfarir og börðust vel í þessum leik þannig að segja má að þróunarstarfið í kvennahokkíinu, með rýmri reglum um lánsleikmenn, sé að skila árangri. Ásynjurnar voru hins vegar seinar í gang og spiluðu ekki vel í fyrstu lotunni. Ynjuleikmaðurinn Diljá Sif Björgvinsdóttir kom SR yfir skömmu eftir miðjan fyrsta leikhluta, en Jónína Guðbjartsdóttir jafnaði metin fyrir Ásynjur undir lok leikhlutans.
Ásynjurnar áttu hins vegar aðra lotuna skuldlaust og höfðu mikla yfirburði, áttu 29 skot að marki SR á meðan ekkert skot kom nálægt marki Ásynjanna. Af því má svo auðvitað álykta sem svo að Ásynjur þurfi að æfa skottæknina með það að markmiði að nýta færin betur. Aðeins eitt mark var skorað í öðrum leikhluta. Þar var á ferðinni Birna Baldursdóttir alveg undir lok leikhlutans.
Ásynjur voru áfram aðgangsharðar í þriðja leikhluta, skutu mikið á mark SR, en gekk illa að skora. Það voru hins vegar gestirnir sem jöfnuðu leikinn snemma í leikhlutanum. Þar var að verki Lilja Sigfúsdóttir með stoðsendingu frá Guðbjörgu Grönvold. Það var síðan ekki fyrr en um fimm mínútur voru eftir af leiknum sem Guðrúnu Blöndal, fyrirliða Ásynja, tókst að skora þriðja mark Ásynja eftir stoðsendingu frá Birnu Baldursdóttur. Það fór því svo að lokum að þrátt fyrir mikla skothríð að marki SR unnu Ásynjur aðeins með eins marks mun.
Guðlaug átti stórleik í marki SR og hélt þeim á floti, en hún varði eitthvað yfir 60 skot í leiknum. SR-liðið sýndi góða baráttu á köflum og má vel við una þrátt fyrir tap í kvöld.
Ásynjur - mörk/stoðsendingar
Birna Baldursdóttir 1/1
Jónína Guðbjartsdóttir 1/0
Guðrún Blöndal 1/0
Refsingar: 10 mínútur
SR - mörk/stoðsendingar
Diljá Sif Björgvinsdóttir 1/0
Lilja Sigfúsdóttir 1/0
Guðbjörg Grönvold 0/1
Refsingar: 4 mínútur