Ásynjur - Ynjur 6-4 (3-3, 2-1, 1-0) - breytt frétt frá fyrstu birtingu

Mynd: Elvar Freyr Pálsson (24.01.2012)
Mynd: Elvar Freyr Pálsson (24.01.2012)


Leiðrétt og breytt frétt frá fyrstu birtingu.

Ásynjur sigruðu Ynjur 6-4 í viðureign SA-liðanna tveggja í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld.

Leikmenn úr báðum liðum stóðu í ströngu á Iceland Ice Hockey Cup í Egilshöllinni og ekki ólíklegt að þreyta hafi haft einhver áhrif á kraft og úthald einhverra leikmanna í leiknum í kvöld. Einnig vantaði leikmenn í bæði liðin vegna meiðsla.

Leikurinn byrjaði mjög fjörlega, Ynjur komust tvisvar yfir í fyrsta leikhlutanum en Ásynjur jöfnuðu jafnharðan og komust svo í 3-2, en Ynjur jöfnuðu, staðan 3-3 eftir fyrsta leikhlutann. Ásynjur höfðu síðan yfirhöndina og bættu við tveimur mörkum í öðrum leikhluta, en Ynjur minnkuðu muninn í 5-4. Snemma í þriðja leikhluta komust Ásynjur í 6-4 og þær urðu lokatölur leiksins þrátt fyrir fjölmargar tilraunir Ynjanna til að komast aftur inn í leikinn.

Heilt yfir má segja að Ásynjur hafi spilað betur, þær skynsamar í sínum leik á meðan meiri óþolinmæði einkenndi leik Ynjanna, en hjá þeim vantaði betra spil og að láta pökkinn ganga betur manna á milli.

Með sigrinum eru Ásynjur komnar með góða forystu í deildinni, hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa og eru með 8 stig.

Sögulegur leikur fyrir tvær Ásynjur
Íris Hafberg, markvörður Ásynja, gat ekki leikið vegna meiðsla, en í hennar stað kom Heiðrún Steindórsdóttir,  sem um helgina spilaði sína fyrstu "alvöru" leiki þegar hún lék með Valkyrjum á mótinu í Egilshöllinni. Fréttir úr Egilshöllinni herma að hún hafi varið eins og berserkur á því móti, enda áttu Valkyrjur þar stundum í vök að verjast og fengu nóg af skotum á sig. Í leiknum gegn Ynjum stóð Heiðrún vel fyrir sínu, auk þess sem Ásynjur þéttu vörnina þannig að Ynjurnar áttu ekki greiða leið að markinu. 

Einhver áhöld eru um það hver skoraði fyrsta mark Ásynja, ábending barst um að það hefði verið Elísabet Kristjánsdóttir með stoðsendingu frá Birnu Baldursdóttur. Elísabet er nýlega byrjuð að æfa og keppa með Ásynjum, en hafði áður æft með Valkyrjum. Ef rétt er að hún hafi skorað (burtséð frá leikskýrslunni) er þetta fyrsta mark hennar. Rétt er þó að taka fram hér að skv. leikskýrslu sem skráð hefur verið á vef ÍHÍ er markið eignað systur hennar, Hrönn Kristjánsdóttur, og stoðsending skráð á Elísabetu og Patriciu Ryan. Við seljum það ekki dýrara en við keyptum það. 

Listinn hér að neðan er breyttur frá fyrstu birtingu fréttarinnar - og er í samræmi við skráningu í leikskýrslunni á vef ÍHÍ. 

Ásynjur - mörk/stoðsendingar
Birna Baldursdóttir 2/1
Guðrún Blöndal 1/1
Elísabet Kristjánsdóttir 0/2
Hrönn Kristjánsdóttir 1/0
Sarah Smiley 1/0
Sólveig Smáradóttir 1/0
Patricia Ryan 0/1
Jónína Guðbjartsdóttir 0/1
Refsingar: 6 mínútur

Ynjur - mörk/stoðsendingar
Guðrún Viðarsdóttir 2/0
Thelma María Guðmundsdóttir 0/2
Kristín Jónsdóttir 1/0
Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/0
Elise Marie Väljeots 0/1
Kolbrún Malmquist 0/1
Refsingar: 16 mínútur

Tölfræðiupplýsingar á vef ÍHÍ:
Leikmannalisti 
Leikskýrsla
Staðan í deildinni 
Leikjalisti og tölfræði