Bæjarkeppni í dag

Í dag kl. 17:30 fer fram hér í Skautahöllinni á Akureyri fyrsta Bæjarkeppnin síðan 1991.  Áður en liðin urðu þrjú talsins og fyrsta Íslandsmótið var háð með þremur liðum tímabilið 1991 - 1992 þá kepptu Skautafélag Akureyrar og Skautafélag Reykjavíkur árlega og nefndust þær viðureignir oftar en ekki Bæjarkeppnir.  Nú eru uppi hugmyndir um að endurvekja þennan viðburð þar sem Akureyraringar etja kappi við Reykvíkinga í íshokkí einu sinni á ári.  Til stendur að gera þetta bæði í karla og kvenna flokkum og í dag eru það karlarnir sem ríða á vaðið.

Bæjarkeppnin gæti orðið á ári hverju mikill viðburður og reikna má með skemmtilegum leik í dag.  Þó fellur þessi viðburður kannski ofurlítið í skuggann af hinni mögnuðu undankeppni sem lauk á miðvikudaginn, en það er engu að síður mikilvægt að koma þessu á.

 Reykvíkingar eru mættir norður með lið og Josh Gribben er búinn að setja saman lið á móti þeim.  Ekki mun vera um sterkustu lið landshlutanna að ræða að þessu sinni, enda markmiðið nú í fyrstu fyrst og fremst að hafa gaman að öllu saman.  Við hvetjum fólk til að mæta og skemmta sér vel.  Fín upphitun fyrir árshátíðina í kvöld.