Karfan er tóm.
LSA átti 9 keppendur á Bikarmótinu sem fram fór í Laugardalnum helgina 13. og 14. október.
Mótið hófst á laugardagsmorgun með keppni í Intermediate Novice þar sem við áttum einn keppanda hana Telmu Marý. Hún hafnaði í 4 sæti á sínu fyrsta móti í vetur með 18,94 stig.
Því næst tók við keppni í Intermediate Ladies. Þar áttum við tvo keppendur þær Evu Björgu og Hugrúnu Önnu. Eva Björg sigraði hópinn með 37, 89 stig sem er gríðarleg bæting frá síðasta móti, Hugrún Anna hafnaði í 5. sæti með 24.03 stig sem einnig er bæting frá síðasta móti.
Eftir heflun og verðlaunaafhendingu í Intermediate flokkunum hófst keppni með stutta prógrammið hjá Advanced Novice. Þar áttum við einn keppanda hana Júlíu Rós. Júlía stóð 4 eftir stutta prógrammið með 24.21 stig.
Því næst hófst keppni í Junior. Þar áttum við að þessu sinni tvo keppendur þær Aldísi Köru og Ásdísi Örnu Fen. Aldís Kara stóð efst að loknu stutta prógramminu með 34.04 stig. Ásdís Arna Fen stóð fjórða að loknu stutta prógramminu með 30.57 stig, en litlu munaði á milli keppanda í 2.-5. sæti eða rétt rúmu stigi.
Keppni á sunnudagsmorgunin hófst með keppni í keppnisflokkunum Chicks og Cups. Ekki er raðað í sæti í þeim flokkum, en allir þátttakendur fá viðurkenningarskjal og verðlaunapening að lokinni keppni. Við áttum tvo keppendur í Cups að þessu sinni þær Magdalena Sulova og Sædísi Hebu. Þær stóðu sig báðar mjög vel á mótinu.
Því næst hófst keppni í Basic Novice. Þar áttum við einn keppanda hana Freydísi Jónu Jing. Freydís Jóna sigraði flokkinn með 29.18 stig sem var nokkur hækkun frá síðasta móti.
Að lokinni verðlaunaafhendingu í barnaflokkunum og heflun var komið að keppni með frjálsa prógrammið hjá Advanced Novice. Þar urðu nokkrar breytingar á milli daga. Júlía Rós skautaði frjálsa prógrammið sitt nánast hnökralaust og skilaði það henni upp í annað sæti fyrir frjálsa prógrammið með 44.16 stig og dugði það henni í silfursætið með 68.37 stig.
Þá var komið að keppni í Junior. Ásdís Arna skautaði 3 í röðinni og skautaði hún frjálsa prógrammið sitt með talsverðu öryggi og skilaði það henni 3. sæti fyrir frjálsa prógrammið með 54.33 stig og dugði það henni í bronssætið með 84.90 stig.
Aldís Kara skautaði síðust af 6 keppendum. Henni tókst nokkuð vel uppi í frjálsa prógramminu og þrátt fyrir að annar tvöfaldi axelinn hefði ekki gengið snuðrulaust var hún samt hæst að loknu frjálsa prógramminu með 62.14 stig sem skilaði henni samanlagt 96.18 stigum, sem er persónulegt met hjá Aldísi fyrir stutta, frjálsa og samanlagt. Hún er því bikarmeistari ÍSS í Junior árið 2018.
Eins er gaman að nefna að Júlía Rós og Aldís Kara skiluðu báðar viðmiðum fyrir afreksefni ÍSS fyrir tímabilið 2018-2019.
Við óskum skauturunum okkar innilega til hamingju með frábæran árangur.